Innlent

Braust inn og makaði blóði á veggina

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Maðurinn var sakfelldur fyrir húsbrot, þjófnaði, tilraun til ráns, hylmingu og fíkniefnalagabrot.
Maðurinn var sakfelldur fyrir húsbrot, þjófnaði, tilraun til ráns, hylmingu og fíkniefnalagabrot. Vísir/GVA
Karlmaður á þrítugsaldri, Baldur Kolbeinsson, var í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag dæmdur í átján mánaða fangelsi fyrir fjölmörg brot; húsbrot, þjófnaði, tilraun til ráns, hylmingu og fíkniefnalagabrot. Afbrotin voru ellefu talsins en maðurinn á talsverðan sakaferil að baki.

Veittist að erlendum ferðamanni og tók töskuna hans

Baldri var meðal annars gefið að sök að hafa ráðist á erlendan ferðamann á BSÍ í Reykjavík í febrúar síðastliðnum, tekið af honum töskuna og neitað að skila henni nema gegn greiðslu. Hann var sagður hafa tekið ferðamanninn haustaki og hrint honum í jörðina. Þá hafi hann reynt að taka fimm þúsund króna seðil sem ferðamaðurinn var að taka út úr hraðbanka.

Fram kom í tilkynningu frá lögreglu þennan dag að ferðamaðurinn hafi fundið til í höfði og verið ringlaður, en ekki með sjáanlega áverka.

Makaði blóði á veggina

Þá var Baldur sakfelldur fyrir húsbrot með því að hafa, ásamt öðrum manni í febrúar, farið inn í mannlausa íbúð að Maríubakka í Breiðholti og makað blóði á veggi hennar. Sömuleiðis hafi hann spennt upp glugga að íbúð við Grettisgötu og stolið þaðan Apple fartölvu, Samsung spjaldtölvu, GoPro tösku, tvennum heyrnartólum, dagbók, lyfjum og hníf en munirnir fundust í fórum mannsins við handtöku.

Baldur var sakfelldur fyrir ýmis önnur brot og játaði hann þau öll skýlaust. Hann hefur tólf sinnum verið dæmdur fyrir brot gegn hegningarlögum og lögum um ávana- og fíkniefni frá árinu 2007, en hann er fæddur árið 1990.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×