Mark Sampson, þjálfari enska kvennalandsliðsins í fótbolta, segir að leikmenn liðsins hafi verið niðurbrotnir eftir 3-0 tap fyrir Hollandi í undanúrslitum EM í gær.
„Það hafa fallið mörg tár,“ sagði Sampson eftir leikinn í gærkvöldi. „Ég gerði nokkur mistök. Ég verð að skoða það og gera betur næst.“
Með sigri í gær hefði Sampson aðeins orðið annar maðurinn til að koma ensku A-landsliði í úrslit á stórmóti, eða frá því Sir Alf Ramsey gerði enska karlalandsliðið að heimsmeisturum 1966.
„Þær gáfu allt. Þær gátu ekki gefið meira. Ég er mjög stoltur af liðinu,“ sagði Sampson sem stýrði enska liðinu til 3. sætis á HM í Kanada fyrir tveimur árum.
Holland mætir Danmörku í úrslitaleik EM á sunnudaginn kemur.

