Hjólreiðaslys varð á Skálholtsvegi við Brúará nú í kvöld. Fimm hjólreiðamenn skullu saman og er einn alvarlega slasaður. Á svæðinu fer nú fram hjólreiðakeppnin KIA Gullhringurinn en hún hefur verið stöðvuð.
Þorgrímur Óli Sigurðsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Suðurlandi, staðfesti í samtali við Vísi að um slys væri að ræða.
Hjólreiðaslys, varð þegar fimm hjólreiðamönnum lenti saman á Skálholtsvegi við Brúará, austan við gatnamótin milli Biskupstungna. Einn er alvarlega slasaður, þrír minna slasaðir og einn er talinn hafa sloppið ómeiddur.
Þyrla landhelgisgæslunnar hefur verið send á svæðið en vegur í kringum slysstað er nú lokaður.
Sjónarvottur segir mikinn viðbúnað á svæðinu. Einar Bárðarson, forsvarsmaður Gullhringsins, hafði áður talið að umferðarslys hefði orðið en mótshaldarar voru nýkomnir á staðinn þegar Vísir náði tali af Einari.
Fréttin hefur verið uppfærð.
Innlent