Lífið

Will Smith sagður í viðræðum um að leika andann í Aladdín

Anton Egilsson skrifar
Will Smith er sagður í viðræðum við Walt Disney.
Will Smith er sagður í viðræðum við Walt Disney. Vísir/Getty
Leikarinn Will Smith er sagður í viðræðum við kvikmyndarisann Walt Disney um að leika andann í nýrri leikinni kvikmynd um götustrákinn Aladdín. Bandaríska vefsíðan Deadline greindi fyrst frá þessu.

Hávær orðrómur hefur verið um um nokkurt skeið að Disney sé með í bígerð að gera endurgerð af hinni sígildu teiknimynd um Aladdín sem sló svo eftirminnilega í gegn árið 1992.

Er breski leikstjórinn Guy Ritchie sagður muna leikstýra myndinni en hann hefur í gegnum tíðina leikstýrt kvikmyndum á borð við Snatch, Lock, Stock and Two Smoking Barrels og Sherlock Holmes myndunum.

Fari svo að Smith muni taka að sér hlutverk hins bláa anda mun hann feta í fótspor stórleikarans Robin Williams sem ljáði andanum rödd sína í teiknimyndinni og fékk mikið lof fyrir.

Í síðasta mánuði var frumsýnd endurgerð af annarri frægri Disney teiknimynd, Beauty and the Beast, sem skartar Harry Potter stjörnunni Emmu Watson í aðalhlutverki og hefur hún hlotið mikið lof gagnrýnenda. Hefur myndin nú þegar halað inn meira en einum milljarði Bandaríkjadollara. Endurgerð af Aladdín myndi eflaust ekki njóta síðri vinsælda.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×