Ríkislögreglustjóri hefur lýst yfir óvissustigi almannavarna vegna aukinnar virkni í Öræfajökli. Jarðskjálftavirkni hefur farið stígvaxandi í jöklinum síðasta árið og bárust tilkynningar um jarðhitalykt í gær.
Veðurstofan hefur tilkynnt að nýr ketill hefur myndast í öskju jökulsins. Engin merki eru um gosóra eða yfirvofandi eldgos.
Óvissustigi almannavarna er lýst yfir þegar grunur vaknar um að eitthvað sé að gerast af náttúru- og mannavöldum sem geti síðar leitt til þess að heilsu og öryggi fólks, umhverfis eða byggðar sé ógnað.
Lögreglan á Suðurlandi verður með vakt á þjóðveginum við Kvíá í nótt en sú ráðstöfun verður endurskoðuð eftir flug vísindamanna um svæðið.
Veðurstofan hefur einnig aukið vöktun á svæðinu og fylgist vel með í samráði við jarðvísindamenn Háskóla Íslands og Almannavarnadeild Ríkislögreglustjóra.
Landhelgisgæslan mun fljúga með vísindamenn til að kanna aðstæður og taka sýni í fyrramálið.
Frekari mælingar verða gerðar í og við jökulinn á næstu dögum sem gefa vonandi betri mynd af atburðarrásinni sem er í gangi.
Í frétt á vef Almannavarna segir að það að lýsa yfir óvissustigi sé hluti af verkferlum í skipulagi almannavarna til að tryggja formleg samskipti og upplýsingagjöf á milli viðbragðsaðila.
Almannavarnir lýsa yfir óvissustigi vegna aukinnar virkni í Öræfajökli

Tengdar fréttir

Vísindamenn sendir að Kvíá
Enn var töluverð brennisteinslykt úr Kvíá þegar lögreglumenn af Suðurlandi áttu þar leið um í gærkvöldi.

Nýr ketill hefur myndast í öskju Öræfajökuls
Nýlegar gervihnattamyndir af Öræfajökli sýna að nýr ketill hefur myndast í öskjunni síðastliðna viku.