Erlent

Mugabe lætur sjá sig á götum höfuðborgarinnar

Daníel Freyr Birkisson skrifar
Robert Mugabe, forseti Simbabve.
Robert Mugabe, forseti Simbabve. Vísir/EPA
Robert Mugabe, forseti Simbabve, sást opinberlega í fyrsta skipti síðan á miðvikudag þegar herinn í landinu reyndi að taka völdin. BBC greinir frá.

Tilefnið var útskriftarathöfn í höfuðborg landsins, Harare. Forsetinn er búinn að sitja heima í stofufangelsi síðustu daga eftir valdarán hersins í Simbabve. Samkvæmt heimildum var endurkomu hins 93 ára forseta fagnað af íbúum höfuðborgarinnar.

Forsetinn mætir árlega í útskriftarathafnir af þessu tagi en fáir bjuggust við því að sjá Mugabe viðstaddan eftir atburði síðustu daga.

Mikil spenna hefur verið í landinu, eins og greint hefur verið frá, eftir að Mugabe ákvað að reka varaforseta landsins Emmerson Mnangagwa úr embætti. Þeir höfðu verið bandamenn innan valdaflokksins ZANU-PF til fjölmargra ára.

Mugabe er talinn vera að greiða leið fyrir eiginkonu sína, hina 53 ára Grace Mugabe, í embætti forseta landsins.

Hann hefur stýrt Simbabve frá árinu 1980, fyrst sem forsætisráðherra og síðar sem forseti.


Tengdar fréttir

Framtíð Mugabe og Simbabve óljós

Viðræður um framtíð Roberts Mugabe, forseta Simbabve, fóru fram í gær. Herinn hefur hneppt Mugabe í stofufangelsi. Hann gæti þó haldið forsetastólnum fram að landsþingi flokks síns í desember.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×