Erlent

Stjórnarsinnar börðu þingmenn í Venesúela

Kjartan Kjartansson skrifar
Þingmaðurinn José Regnault blóðugur í þinghúsinu í Venesúela ásamt starfsbróður sínum Luis Stefanelli.
Þingmaðurinn José Regnault blóðugur í þinghúsinu í Venesúela ásamt starfsbróður sínum Luis Stefanelli. Vísir/EPA
Nokkrir þingmenn og blaðamenn eru sárir eftir að múgur stuðingsmanna ríkisstjórnar Venesúela réðst inni þinghúsið og barði þá. Stjórnarsinnarnir eru sagðir hafa verið vopnaðir prikum og þeir hafi kveikt í flugeldum.

Stjórnarandstaðan er með meirihluta í þinginu. Breska ríkisútvarpið BBC hefur eftir vitnum að ólætin hafi hafist eftir þingfund þar sem þjóðhátíðardegi landsins var fagnað.

Mannfjöldi hafði safnast saman fyrir utan þinghúsið nokkrum klukkustundum áður en hópur réðist inn í það.

Uplausnarástand hefur ríkt í Venesúela að undanförnum en landið er í djúpri efnahagskreppu. Landsmenn hafa þurft að líða skort á nauðsynjum eins og lyfjum og matvælum.

Stjórnarandstaðan hefur sakað Nicolas Maduro, forseta, um fjármálalega óstjórn og að grafa undan lýðræðislegum stofnunum landsins.

Að minnsta kosti níutíu manns hafa látist í skærum stjórnarsinna og andstæðinga undanfarin misseri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×