Nýjasti og sjá sjöundi leikurinn í Tekken seríunni víðsfrægu eftir Bandai-Namco kom út í síðasta mánuði.
Tekken tekur sig blessunarlega ekki alvarlega og til marks um það má benda á að nokkrar af persónum leiksins eru einstaklega furðulegar. Þar á meðal er Kuma, risastór björn sem lumbrar á óvinum sínum með stærðarinnar laxi. Svo má ekki gleyma pandabirninum með sixpensarann og Alisu, einhverju furðulegasta kynlífsvélmenni sem sögur fara af.
Bardagakerfi leiksins er hins vegar gott og fjölbreytt. Einnig má finna heilan haug af persónum í leiknum, bæði gamlar og nýjar.
Þá ættu spilarar að vera fljótir á tökum á kerfi leiksins, en samt ekki. Ég hélt til dæmis að ég væri að ná góðum tökum á leiknum þegar ég fór að slást við níu ára frænda minn, hann Hörð Breka. Eftir einungis nokkra leiki tók hann sig til og sigraði mig. Byrjendur ættu ekkert að þurfa að hræðast T7.
Þrátt fyrir það væri ekkert verra ef það væri byrjendanámskeið (Tutorial) í leiknum.
Hrottaleg tónlist
Eins og Netherrealms hafa gert með Mortal Kombat og Injustice hjálpar T7 þeim sem eru að tapa illa að hefna sín. Við hvert högg safnast upp svokallaður Rage Drive og þegar hann er fullur geta spilarar gert mikinn skaða gegn óvinum sínum með sérstökum árásum.
Þá er einnig hægt að breyta útliti persóna leiksins. Það nær bæði til netspilunar og ekki. Með því að spila leikinn og vinna safna spilarar peningum sem þeir geta notað til þess að breyta persónum.
Það er lítið hægt að setja út á hljóð leiksins, en aðra sögu er að segja um tónlistina. Hún er einfaldlega hrottaleg og of hávær í leiknum. Hún er eiginlega bara fyrir, en það verður að falla undir mína persónulegu skoðun og án þess að hafa athugað það þá geri ég ráð fyrir því að það sé hægt að lækka hana.
Það má einnig segja um grafík T7 að hún sé ekkert til að hrópa húrra yfir, en hún er frekar teiknimyndaleg.
Það skiptir þó litlu sem engu máli. Það sem skiptir mestu máli þegar kemur að Tekken leikjunum er hvort að vinahópurinn hafi gaman af þeim.