Lífið

Sér fegurðina í því sem á að fara á haugana

Guðný Hrönn skrifar
Margrét Eyjólfsdóttir og tíkin Coco í Butterfly-stólnum.
Margrét Eyjólfsdóttir og tíkin Coco í Butterfly-stólnum. Vísir/Anton Brink
Margrét Eyjólfsdóttir er mikil handverkskona og hefur gaman af því að glæða hluti nýju lífi. „Ég hef verið ansi nösk á að kaupa húsgögn og húsbúnað til að gera upp,“ segir Margrét sem verslar helst á nytjamörkuðum, á Bland.is og á Facebook. „Ég hef keypt helling á nytjamörkuðum, bæði hér heima og eins í Gautaborg þar sem dóttir mín býr og starfar sem hundasnyrtir,“ segir Margrét sem lætur hvorki himin né haf stoppa sig þegar kemur að húsgagnakaupum.

„Í augnablikinu er Butterfly-stóllinn minn í uppáhaldi hjá mér, dóttir mín dröslaði honum heim til Íslands fyrir mig frá Svíþjóð. Þetta er náttúrulega lífsstíll – að sjá fegurðina í því sem aðrir henda. Ef það væri íþrótt að fara á flóamarkaði þá kæmist ég örugglega á verðlaunapall,“ segir hún og hlær.

Spurð út í dýrmætasta fjársjóð sem hún hefur fundið á nytjamarkaði á Margrét erfitt með að svara. „Það er svo margt fallegt sem ég hef fundið. Bara núna í vikunni fékk ég til dæmis gullfallegan spegil sem ég ætla að gera svartan. Ég er líka ansi ánægð með forstofuskápana mína sem eru svona gamlir stálskápar sem ég málaði.“

Hvað er svo á döfinni hjá Margréti sem snýr að heimilinu? „Ég flyt í næsta mánuði og er á fullu að gera klárt fyrir það. Ég hlakka mikið til eignast þar fataherbergi, hvaða konu dreymir ekki um það,“ segir Margrét glöð í bragði.

Svart einkennir heimili Margrétar.
.

Þennan svala stól fékk Margrét á nytjamarkaði.
.

Notaleg stemnning í svefnherberginu. Margrét málaði og gerði náttborðin upp á sínum tíma.
.

.

Heima hjá Margréti í Norðlingaholti.
.

Tímaritin á sínum stað.
.

Fallegir munir í hverjum krók og kima.
.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.