Innlent

Stúlkunum bjargað á síðustu stundu

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Stúlkurnar fundust í tröppum í miðbæ Reykjavíkur í gærkvöldi.
Stúlkurnar fundust í tröppum í miðbæ Reykjavíkur í gærkvöldi. Vísir/KTD
Stúlkurnar tvær sem fundust meðvitundarlausar í miðbæ Reykjavíkur í gærkvöldi eru báðar komnar til meðvitundar. Önnur hefur þegar verið flutt á barnadeild Landspítalans og hin verður flutt þangað innan tiðar. Stúlkurnar eru fimmtán ára gamlar.

Guðmundur Páll Jónsson, lögreglufulltrúi hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, segir í samtali við Vísi að grunur liggi á um að stúlkurnar hafi innbyrt fíkniefnið MDMA en það sé þó ekki staðfest.

„Þetta er grafalvarlegt mál,“ segir Guðmundur Páll í samtali við Vísi.

„Þeim var bjargað þarna bara á síðustu stundu.“

Sjá einnig: Tvær fimmtán ára stúlkur fundust meðvitundarlausar í miðbæ Reykjavíkur

Stúlkurnar fundust í tröppum í miðbæ Reykjavíkur um klukkan hálf átta í gær. Ekki er vitað hvernig stúlkurnar komust yfir efnin en samkvæmt Guðmundi Páli er ekki talið að þeim hafi verið byrlað ólyfjan. Lögregla vonast til að ræða við stúlkurnar eftir helgi þegar þær hafa náð að jafna sig.

„Þetta er sérstakt tilfelli að þær missa tvær þarna meðvitund,“ segir Guðmundur.

Hann segist vona að um einangrað tilvik sé að ræða og að ekki sé vitað til að neysla unglinga á MDMA sé að færast í aukanna.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×