Erlent

Macron nýr forseti Frakklands

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Emmanuel Macron.
Emmanuel Macron. vísir/afp
Emmanuel Macron var í dag settur í embætti Frakklandsforseta í Elysée-höllinni í París. Macron, sem er 39 ára, er yngsti forseti í sögu fimmta lýðveldis Frakkalands og sá fyrsti sem ekki kemur úr röðum hinna hefðbundnu valdaflokka; sósíalista eða repúblikana.

Macron tekur við embætti af Francois Hollande sem er einn óvinsælasti forseti Frakklands. Hollande varð forseti árið 2012 en sóttist ekki eftir endurkjöri.

Nýr forseti gekk í dag rauða dregilinn að höllinni og heilsaði forvera sínum á hallartröppunum. Eiginkona Macron, Brigitte, gekk ekki með honum til hallarinnar en var viðstödd innsetninguna.  

Formlegri athöfn lauk svo þegar 21 fallbyssuskoti var skotið upp á bökkum Signu og nýjum forseta ekið að Sigurboganum þar sem hann vottar óþekkta hermanninum virðingu sína.

Mikil öryggisgæsla er í París vegna athafnarinnar en lögreglumönnum á vakt var fjölgað um mörg hundruð. Viðbúnaðarstig er enn í gildi í landinu eftir hryðjuverkaárásirnar á Bataclan árið 2015.

Macron fékk 66 prósent atkvæða í forsetakosningunum um síðustu helgi en mótframbjóðandi hans, Marine Le Pen, fékk tæp 34 prósent.


Tengdar fréttir

Hvorki leki né dræm kjörsókn gat stöðvað Macron

Emmanuel Macron var spáð sigri í frönsku forsetakosningunum strax og fyrstu tölur birtust. Hann tekur við embætti þann 14. maí næstkomandi. Macron sagði nýjan kafla skrifaðan í sögu landsins. Le Pen vill leiða stjórnarandstöðuna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×