Lífið

Miles Teller orðaður við nýja mynd Baltasars Kormáks

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Miles Teller er ein skærasta stjarna Hollywood um þessar mundir.
Miles Teller er ein skærasta stjarna Hollywood um þessar mundir. Vísir/Getty/Vilhelm
Leikarinn Miles Teller hefur verið orðaður við Adrift, næstu kvikmynd Baltasars Kormáks. Teller myndi þá leika á móti Shailene Woodley og ef af verður er þetta fimmta myndin sem þau leika saman í. Þetta kemur fram á vef Hollywood Reporter.

Myndin er byggð á sannsögulegum atburðum og segir frá ungri konu, Tami Oldham Ashcraft, sem þarf að takast á við mikið mótlæti á Kyrrahafinu eftir að skúta, sem hún og unnusti hennar höfðu tekið að sér að sigla frá Tahíti til San Diego í Bandaríkjunum fyrir eigendur hennar, gjöreyðilagðist í fjórða stigs fellibyl árið 1983. Í fjórða stigs fellibyl nær vindhraði 68 til 80 metrum á sekúndu.

Þau þurftu að berjast við 15 metra háar öldur, sem þýðir að þegar skútan hafði náð á topp ölduskafls var fallhæðin á við fimm hæða hús.

Í þessum hamagangi fékk Tami höfuðhögg og var meðvitundarlaus í 27 klukkustundir. Þegar hún vaknaði var mastrið, vélin og rafkerfið ónýtt. Talstöðin týnd og lítið eftir af mat og ferskvatni. Með lífsviljann að vopni reyndi hún að bjarga sér um 2.400 kílómetrum frá landi með því að beina skútunni eftir hafstraumum sem hún vonaði að myndu bera hana í land.

Shaileene Woodley mun fara með hlutverk Tami og ef af samningnum verður mun Teller fara með hlutverk unnusta hennar.

Stjarna Teller skín skært um þessar mundir en hlutverk hans í hinni margverðlaunuðu Whiplash skaut honum upp á stjörnuhimininn fyrir um tveimur árum síðan.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×