Innlent

Birgitta: Fráleitt að birting skýrslunnar hefði ekki haft áhrif á úrslit kosninga

Atli Ísleifsson skrifar
BIrgitta Jónsdóttir.
BIrgitta Jónsdóttir. Vísir/Anton
Birgitta Jónsdóttir, þingflokksformaður Pírata, segir það fráleitt að halda því fram að skýrslan um eignir Íslendinga í skattaskjólum hefði ekki haft áhrif á úrslit þingkosninga.

Birgitta segir þetta í færslu á Facebook þar sem hún vísar í orð Bjarna Benediktssonar, formanns Sjálfstæðisflokksins.

„Ef skýrslan hefði komið inn á þing stuttu fyrir kosningar og fólk séð svart á hvítu hversu miklu af skattfé er blætt framhjá hefði með sanni í það minnsta komið þessum málaflokki aftur á dagskrá. Ég þori ekkert að fullyrða eins og Bjarni um áhrif á stöðu flokks hans, en þetta hefði breytt umræðunni svo mikið er víst,“ segir Birgitta.

Komið hefur fram að skýrslu starfshópsins hafi verið skilað til fjármála- og efnahagsráðuneytisins þann 13. september og Bjarni fengið kynningu á henni 5. dag októbermánaðar, 24 dögum fyrir kosningar. Skýrslan var loks gerð opinber síðastliðinn föstudag, 6. janúar. Starfshópurinn átti upphaflega að skila skýrslunni í lok júnímánaðar.

Birgitta segir í Facebook-færslunni að margir hafi sagt stjórnarandstöðuna ekki hafa gert neitt til að halda umræðunni um Panamaskjölin lifandi fyrir kosningar. Hún sé þó ekki tilbúin að fallast á þá söguskoðun.

Í umræddri skýrslu kom fram að mögulegt tap íslenska ríkisins vegna vantalinna eigna Íslendinga í skattaskjólum gæti numið allt frá 2,8 milljörðum til 6,5 milljarða á ári. Þá segir að á árunum 2006 til 2014 hafi íslenska ríkið mögulega orðið af 56 milljörðum króna.

Sjá má færslu Birgittu í heild sinni að neðan.

Svandís Svavarsdóttir, þingflokksformaður Vinstri grænna, er á sama máli og Birgitta en hún ræddi málið í Harmageddon á X-inu 977 í morgun.

Tengdar fréttir

Bjarni segir að svör sín hafi verið ónákvæm

Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, segir að svör sín um hvenær ráðuneyti sínu hefði borist skýrsla um eignir Íslendinga á aflandssvæðum hafi verið ónákvæm.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×