Tímaritin Séð og Heyrt og Nýtt líf munu á næstunni koma út á ný en þau hafa verið í útgáfuhléi frá áramótum. Þetta kemur fram í tilkynningu frá útgáfufélaginu Pressunni en það tók í dag formlega við eignarhaldi á útgáfufélaginu Birtíngi.
Í tilkynningunni segir að á hluthafafund hafi ný stjórn félagsins verið kjörin en í henn sitja Björn Ingi Hrafnsson stjórnarformaður, Matthías Björnsson og Sigurvin Ólafsson. Karl Steinar Óskarsson verður áfram framkvæmdastjóri Birtíngs.
„Á fundi með starfsmönnum Birtíngs kynntu forsvarsmenn Pressunnar sýn sína á möguleika tímarita Birtíngs og var samdóma álit fundarmanna að miklir möguleikar felist í sókn með nýrri tækni á netinu og á samskiptamiðlum, auk hefðbundinnar útgáfu tímaritanna.
Fram kom í máli Björns Inga Hrafnssonar, nýs útgefanda Birtíngs, að gert er ráð fyrir að Séð og heyrt og Nýtt líf hefji fljótlega göngu sína að nýju, en bæði tímaritin hafa verið í útgáfuhléi frá áramótum. Á næstunni verði kynntar margvíslegar aðgerðir til að sækja fram í útgáfu á vegum samstæðunnar, en Pressan og einstök dótturfélög hennar gefa nú út tæplega þrjátíu fjölmiðla hér á landi.
Pressan er nú eigandi alls hlutafjár í Birtíngi, en fyrrverandi hluthafar í félaginu, þeir Hreinn Loftsson, Matthías Björnsson og Karl Steinar Óskarsson, bætast í hluthafahóp Pressunnar. Framkvæmdastjóri Pressunnar er Arnar Ægisson,“ segir í tilkynningu.
Séð og Heyrt og Nýtt líf koma út á ný
Tengdar fréttir
Björn Ingi eignast tímaritaútgáfuna Birting
Enn aukast umsvip Pressunnar ehf á fjölmiðlamarkaði.
Séð og Heyrt komið á ís: „Að njóta ásta með Ástu, er það svona febrúarmarkmið?“
"Núna er bara staðan þannig að blaðið er í útgáfuhléi,“ segir Ásta Hrafnhildur Garðarsdóttir, ritstjóri Séð & Heyrt en blaðið hefur verið í útgáfuhléi undanfarnar vikur. Hún var í viðtali í Brennslunni á FM957 í morgun og fór yfir stöðuna á slúðurtímaritinu.