Ný miðstjórn Alþýðusambandsins kom saman í fyrsta skipti í dag frá því hún var kjörin á þingi Alþýðusambandsins fyrir um hálfum mánuði. Auk þess að lýsa yfir gríðarlegum vonbrigðum með ákvörðun Seðlabankans segir í yfirlýsingunni að stýrivextir á Íslandi séu nú þegar margfalt hærri en í nágrannalöndum. Vaxtastigið hafir veruleg áhrif á lífskjör almennings og möguleika til að sjá fyrir sér.
Sjá einnig: Seðlabankinn reiknar með 3 prósenta verðbólgu strax í desember
Ragnar Þór Ingólfsson formaður VR segir að þetta séu kaldar kveðjur inn í þær kjaraviðræður sem nú séu að hefjast.
„Og ljóst að Seðlabankinn ætlar sem fyrr að lýsa yfir stríði við verkalýðshreyfinguna,“ segir Ragnar Þór. Ef takast eigi að bæta lífskjör þurfi allir að leggjast á eitt og þar sé Seðlabankinn ekki undanskilinn.
Seðlabankinn boðar frekari vaxtahækkanir haldi verðbólguvæntingar áfram að hækka umfram markmið. Aðrar ákvarðanir, einkum á vinnumarkaði og í ríkisfjármálum, hafi þar áhrif.
„Við erum varla búin að taka fyrsta fundinn við okkar viðsemjendur. Þannig að ef þetta er það sem koma skal þá lofar þetta ekki góðu. Við þurfum svo sannarlega að endurskoða okkar kröfugerð ef þetta verður tóninn frá Seðlabankanum,“ segir formaður VR.

„Þessu verður einfaldlega að linna og ef það þarf að skipta um fólk í brúnni í Seðlabankanum eða endurskoða algerlega peningastefnuna frá grunni verður einfaldlega að gera það. Þetta gengur ekki mikið lengur,“ segir Ragnar Þór.
Vaxtahækkanir Seðlabankans geti einfaldlega leitt til aukinnar verðbólgu vegna aukins kostnaðar fyrirtækjanna.
„Sem aftur þurfa að mæta því með hækkun verðlags sem aftur þrýstir upp verðbólgu. þannig að þessi leið Seðlabankans til að reyna að draga úr verðbólgu er svolítið eins og að pissa í skóinn,“ segir Ragnar Þór Ingólfsson.