Forsaga innkaupanna er nokkur. Undanfarin ár hefur opnum vinnurýmum í bankanum verið fjölgað og nú er svo komið að um sjötíu prósent starfsmanna starfa í slíkum rýmum. Rýmum sem þessum fylgir oft aukinn hávaði og truflun í tengslum við störf fólks í kring og þá hefur komið í ljós að hljóðmengun frá loftræstikerfi hússins hefur aukist við breytingarnar. Starfsstöðvar SÍ við Kalkofnsveg 1 eru þannig gerðar að þar eru ekki opnanlegir gluggar.
Í svari Seðlabankans við fyrirspurn Fréttablaðsins segir að vorið 2017 hafi verið gerð könnun meðal starfsmanna þar sem í ljós kom að 42 prósent þeirra voru óánægð með loftgæði í húsinu. Meðal annars var kvartað yfir þungu lofti, hávaða frá loftræstikerfi, matarlykt frá eldhúsi og óþef af gólfteppum.

„Til að bregðast við ábendingum um aukinn hávaða, einkum frá loftræstikerfum í opnum vinnurýmum, var ákveðið að starfsmenn sem þess óskuðu gætu fengið hljóðdempandi heyrnartól til notkunar á starfsstöðvum sem meðal annars er hægt að tengja við síma,“ segir í svari Stefáns Jóhanns Stefánssonar, ritstjóra Seðlabankans.
Hjá Seðlabankanum starfa rúmlega 180 manns og hefur ríflega helmingur þeirra, rétt um hundrað manns sem flestir starfa í opnum rýmum, fengið slík heyrnartól frá bankanum, af gerðinni Bose.
„Þetta fyrirkomulag hefur almennt mælst vel fyrir, sérstaklega í opnum rýmum bankans,“ segir Stefán. „Seðlabankinn mun áfram leitast við að sjá til þess að vinnuumhverfi starfsmanna sé í samræmi við þær kröfur og viðmið sem eiga við á vinnustöðum hér á landi.“