Viðskipti innlent

Forlagið vill að efni höfunda sinna verði fjarlægt úr Storytel

Sigurður Mikael Jónsson skrifar
Egill Jóhannsson, framkvæmdastjóri Forlagsins.
Egill Jóhannsson, framkvæmdastjóri Forlagsins. VÍSIR/ANTON BRINK
„Óánægja rithöfunda hefur ekki farið fram hjá okkur. Við höfum, fyrir þeirra hönd, verið í sambandi við Storytel um úrlausn þeirra mála,“ segir Egill Örn Jóhannsson, framkvæmdastjóri Forlagsins. Innkoma hljóð- og rafbókaþjónustunnar Storytel hefur fallið í grýttan jarðveg meðal hóps rithöfunda og telur Rithöfundasamband Íslands að verið sé að brjóta gegn höfundarrétti rithöfunda þar sem ekki hafi verið samið sérstaklega við þá.

Sjá einnig: Netflix hljóðbókanna opnað á Ísland

Á Storytel má í dag finna hundruð íslenskra titla, þar á meðal frá kanónum Forlagsins á borð við Arnald Indriðason og marga fleiri. En Egill Örn segir Forlagið ekki hafa gert neinn samning við Storytel. Efnið á veitunni byggi á eldri útgáfu á vegum íslenska hljóðbókafyrirtækisins Skynjunar. Ekkert nýtt efni frá Forlaginu sé þar inni.

Storytel keypti Skynjun á síðasta ári en Stefán Hjörleifsson, framkvæmdastjóri Storytel á Íslandi, var áður í forsvari fyrir Skynjun. Efni sem samningar voru um hjá Skynjun hefur því birst í Storytel.

„Við erum í samtali við Storytel um að efni höfunda Forlagsins, sem kom út á vegum Skynjunar á sínum tíma, verði fjarlægt úr Storytel,“ segir Egill Örn sem býst við að þau mál skýrist fljótlega.

Sjá einnig: Telja bókum sínum streyft í leyfisleysi

Aðspurður segir Egill að þó Forlagið hafi áform um stóraukna hljóðbókaútgáfu sjálft, standi ekki til að fara í samkeppni við Storytel með áskriftarsölu líkt og sænska fyrirtækið býður upp á.

Við höfum engin áform um að hefja áskriftarsölu, hvorki á hljóðbókum né öðru.“


Tengdar fréttir

Netflix hljóðbókanna opnað í dag á Íslandi

Hljóðbókaveitan Storytel komin til landsins. Veitir áskrifendum ótakmarkaðan aðgang að hundruðum íslenskra hljóðbóka og tugþúsundum enskra titla beint í smáforrit. Tilkoma Storytel gæti þýtt uppgrip hjá raddfögrum við að lesa bækur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×