Innlent

Á verkstæðinu á Sauðárkróki segjast þeir geta gert við allt

Kristján Már Unnarsson skrifar
Gunnar Valgarðsson, verkstæðisformaður í Kjarnanum.
Gunnar Valgarðsson, verkstæðisformaður í Kjarnanum. Stöð 2/Arnar Halldórsson.
Skagfirðingar eiga sennilegasta fjölhæfasta verkstæði landsins, sem um leið er stærsta bílaverkstæði landsbyggðarinnar. Þar er gert við nánast alla hluti undir sama þaki. Rætt var við Gunnar Valgarðsson, verkstæðisformann í Kjarnanum, í fréttum Stöðvar 2. 

Í sama húsi á Sauðárkróki eru bílaverkstæði, vélaverkstæði, rafmagnsverkstæði og tölvuverkstæði. Samtals starfa þar um eitthundrað manns að gera við ólíkustu tæki eins og bíla, þvottavélar, vélbúnað skipa og tölvur.  Gunnar telur þetta einstakt á landinu að hafa svo fjölhæfða starfsemi undir sama þaki. 

Þar er jafnframt stór varahlutaverslun þar sem fá má það helsta fyrir ökutækið. Bílaverkstæðið telja menn það stærsta utan Reykjavíkursvæðisins. Þeir segjast gera við allt sem ekur: 

„Fólksbílinn, dráttarvélina, vörubílinn, snjósleðann og fjórhjólið. Það er í raun sama hvort það þarf að smyrja bílinn eða taka upp mótorinn eða ef þú hefur keyrt á eitthvað. Réttingar eða skipta um framrúðu. Nefndu það. Við getum bara gert við allt sem er á hjólum, - og rúmlega það,“ segir Gunnar.

Frá bílaverkstæðinu.Stöð 2/Arnar Halldórsson.
Viðskiptavinir eru nær eingöngu heimamenn í Skagafirði, segir Gunnar; bændur koma með traktorinn, þar er gert við mjólkurbílinn, auk þess sem verkstæðið vinnur mikið fyrir verktaka og flutningafyrirtæki. 

Bílaverkstæðið er jafnan með tvo til fjóra lærlinga og þeir segjast leggja mikið upp úr endurmenntun. 

„Já, við erum með mjög hátt menntastig á starfsmönnum og það er stöðug endurmenntun í gangi. Menn eru að fara hér ítrekað á endurmenntunarnámskeið. Nú er náttúrlega mikið verið að keyra á þessa rafbíla. Við erum að sækja þau námskeið núna í vetur, mikið,“ segir verkstæðisformaðurinn. 

Einnig var fjallað um starfsemina í þættinum „Um land allt” á Stöð 2 í gærkvöldi. 

Hér má sjá frétt Stöðvar 2:


Tengdar fréttir

Gamlir skreiðarhjallar öðlast nýtt líf með stórþorskinum

Gamlir skreiðarhjallar, sem staðið höfðu ónotaðir árum saman á Sauðárkróki, hafa öðlast líf að nýju, þökk sé óvenju stórum þorski. Svo stórir eru þorskhausarnir að þurrkverksmiðjan ræður ekki við þá.

Skagfirðinga dreymir um öflugri Alexandersflugvöll

Ráðamenn Sveitarfélagsins Skagafjarðar telja varaflugvöll á Sauðárkróki geta stutt við beint millilandaflug til Akureyrar. Sex mánaða tilraun Ernis til innanlandsflugs á Krókinn stendur fram á vor.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×