Erlent

Borgarstjóri Feneyja vill sekta ferðamenn sem sitja aðgerðalausir á götunni

Atli Ísleifsson skrifar
Rúmlega 20 milljónir ferðamanna heimsækja feneyjar á hverju ári.
Rúmlega 20 milljónir ferðamanna heimsækja feneyjar á hverju ári. Vísir/Getty
Luigi Brugnaro, borgarstjóri Feneyja á Ítalíu, segist vilja herða reglur til að draga úr straumi ferðamanna til borgarinnar enn frekar. Brugnaro hefur lagt til að lögreglu verði heimilt að sekta fólk sem sitji aðgerðalaust á götum, gangstéttum eða torgum um milli fimmtíu og fimm hundruð evrur.

Í frétt Guardian segir að borgarstjórn í Feneyjum muni greiða atkvæði um tillöguna í október. Þá íhugi borgarstjórinn ennfremur að bannað verði að spila tónlist í öllum þeim bátum sem sé siglt um síki borgarinnar.

Um 60 þúsund ferðamenn koma til Feneyja á degi hverjum eða rúmlega tuttugu milljónir á ársgrundvelli. Alls búa um 50 þúsund manns í gamla borgarhluta Feneyja, svo ferðamenn eru þar ætíð í meirihluta. Borgarbúar hafa lengi kvartað vegna hins mikla fjölda ferðamanna. 

Borgaryfirvöld hafa þegar gripið til ýmissa bragða til að draga úr áhuga ferðamanna að sækja borgina heim. Þannig er nú þegar óheimilt að borða á götum úti, að setjast á Markúsartorginu, gefa dúfunum og ganga um ber að ofan. Þá verða þeir sektaðir sem synda í síkjum borgarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×