Erlent

„Líklega það skelfilegasta sem ég hef upplifað“

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Það eina sem Bretton Hayes gat gert var að vera pollrólegur.
Það eina sem Bretton Hayes gat gert var að vera pollrólegur. Mynd/Skjáskot
Bandaríkjamaðurinn Britton Hayes komst í hann krappann á dögunum þegar blettatígur stökk upp í bíl hans er hann var í svokallaðari safari-ferð í Tansaníu.

Hayes var í hópi ferðamanna sem voru að skoða blettatígra. Fyrir framan bílinn voru tveir blettatígrar og var hópurinn með athyglina á þeim. Á meðan læddist sá þriðji meðfram bílnum áður en hann hoppaði inn í hann og skoðaði sig þar um.

„Það var of seint að keyra í burtu eða gera eitthvað vegna þess að maður vill ekki bregða dýrunum. Þá fara hlutirnir úrskeiðis,“ sagði Hayes í samtali við KOMO News í Seattle, sem greindi fyrst frá.

Hayes segir að leiðsögumaður hópsins hafi leiðbeint honum í gegnum þetta en Hayes sat í sætunum fyrir framan blettatígurinn. Sýndi hann Hayes hvernig hann ætti að hægja á andardrættinum auk þess sem hann sagði honum að líta ekki í átt að blettatígrinum, svo að dýrið fengi frið til þess að skoða sig um.

„Í hreinskilni sagt er þetta líklega það skelfilegasta sem ég hef upplifað,“ sagði Hayes. „Miðað við það sem maður hefur lesið geta dýrin skynjað hræðslu og óþægindi og þá bregðast þau við. Ég reyndi því að vera eins rólegur og ég gat.“

Myndband sem tekið var af blettatígrinum má sjá hér að neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×