Erlent

Tveir látnir vegna óveðursins Michael

Gunnar Reynir Valþórsson og Samúel Karl Ólason skrifa
Styrkur óveðursins kom mörgum á óvart en Michael var aðeins skilgreindur sem hitabeltislægð á sunnudaginn var.
Styrkur óveðursins kom mörgum á óvart en Michael var aðeins skilgreindur sem hitabeltislægð á sunnudaginn var. AP/Gerald Herbert
Mesta óveður sem nokkru sinni hefur gengið yfir norðvesturhluta Flórídaríkis, fellibylurinn Michael, hefur sett allt á flot í strandbæjum og brotið stærðarinnar tré líkt og um strá væri að ræða. Michael náði landi síðdegis í gær og var þá þriðja stigs fellibylur þar sem vindhraðinn var um 200 kílómetrar á klukkustund.

Staðfest er að tveir eru látnir í Georgíu. Einn maður dó þegar tré féll á heimili hans og svo dó ellefu ára stúlka þegar brak fauk á hjólhýsi sem hún var í. Járnstöng úr brakinu mun hafa farið í gegnum hjólhýsið og lent í höfði stúlkunnar, samkvæmt Washington Post.

Um fimm hundruð þúsund manns voru án rafmagns í Flórída, Alabama og Georgíu.

Michael var svo öflugur að hann var enn í fellibylsstyrk eftir að hann gekk á land en yfirleitt dregur mjög úr veðrinu þegar fellibyljir skella á ströndum. Þó hefur sljákkað töluvert í honum eftir því sem klukkutímarnir hafa liðið. Enn er þó mikil hætta á flóðum inn með landi.

Styrkur óveðursins kom mörgum á óvart en Michael var aðeins skilgreindur sem hitabeltislægð á sunnudaginn var. Óvenju hár hiti sjávar í Mexíkóflóa er talinn hafa orsakað hversu hratt hann efldist að styrkleika.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×