Körfubolti

Hrafn fundar um framtíð sína í Garðabænum

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Hrafn Kristjánsson er án samnings.
Hrafn Kristjánsson er án samnings. vísir/anton
Hrafn Kristjánsson, þjálfari Stjörnunnar í Domino´s-deild karla í körfubolta, fundar um framtíð sína í dag með formanni körfuknattleiksdeildar félagsins, Hilmari Júlíussyni.

Hrafn átti ekki góðan vetur með Stjörnuliðið sem hafnaði í sjöunda sæti deildarinnar og féll úr leik í átta liða úrslitum úrslitakeppninnar í fyrradag þegar að liðið tapaði í fjórða leik fyrir ÍR.

Í fyrra náði Stjörnuliðið öðru sæti deildarinnar en var sópað í sumarfrí í undanúrslitum af Grindavík, 3-0. Hrafn hefur stýrt Stjörnunni í fjögur ár og tapað í átta liða úrslitum þrívegis.

„Samningur Hrafns er útrunninn og hann er að koma og hitta mig. Það hefur engin ákvörðun verið tekin um framhaldið. Við ætlum bara að fara yfir málin. Við ætlum samt ekki að taka okkur langan tíma í að klára þetta,“ segir Hilmar Júlíusson í samtali við Vísi.

Hrafn hefur áður þjálfað Þór og KR en hann gerði vesturbæjarstórveldið að Íslands- og bikarmeisturum árið 2011.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×