Björg Eva Erlendsdóttir, framkvæmdastjóri VG, segir að skráningum hafi fjölgað jafnt og þétt síðustu misserin. „Það voru úrsagnir og svo því sé nú haldið til haga þá voru þær hátt í 200 í kringum ríkisstjórnarmyndunina, en síðan hefur verið sígandi lukka. Svo var smölun í kringum forvalið og hún stóð til 14. og var frekar massív,“ segir hún.

Líf Magneudóttir borgarfulltrúi er eini frambjóðandinn sem óskar eftir fyrsta sætinu. Hún segir engu að síður mikilvægt að þátttaka í prófkjörinu verði góð og að hún fái afgerandi kosningu í sætið.
Líf tók við oddvitasætinu á miðju kjörtímabili af Sóleyju Tómasdóttur. „Það er gott að halda því til haga að ég er ekki kjörin oddviti flokksins og er að sækja umboð mitt til flokksins sem oddviti núna í fyrsta sætið,“ segir Líf. Tveir frambjóðendur biðja um annað sæti í prófkjörinu, en það eru þau Elín Oddný Sigurðardóttir og Gústav Adolf Bergmann Sigurbjörnsson. Sá síðarnefndi gefur þó kost á sér í 2. til 4. sæti. Mesta keppnin er hins vegar um þriðja sætið, þar sem fimm frambjóðendur sækjast eftir því.
Listi Framsóknarflokksins fyrir borgarstjórnarkosningarnar var birtur í fyrradag. Ingvar Mar Jónsson, flugstjóri hjá Icelandair, verður í fyrsta sæti. „Áherslan verður fyrst og fremst í menntamálum. Við viljum hækka laun kennara og forgangsraða þannig. Setja kennarana á stall fyrir börnin,“ segir Ingvar.