Innlent

Tækifæri fyrir landsmenn í stofnun þjóðgarðs

Kristjana Björg Guðbrandsdóttir skrifar
Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfisráðherra.
Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfisráðherra. Vísir/Anton Brink
Það vakti athygli þegar nýr umhverfisráðherra sagði aðstoðarmanni sínum upp störfum og nú eru sérfræðingar í ráðuneytinu að

skoða hvort hann sé hæfur til að fjalla um friðun jarðar í eigu þess sama aðstoðarmanns. Guðmundur Ingi er bæði menntaður í Yale-háskólanum í Bandaríkjunum og Hússtjórnarskólanum í Reykjavík.

Guðmundur Ingi Guðbrandsson ráðherra er mættur til vinnu eldsnemma að morgni í umhverfis- og auðlindaráðuneytinu. Klukkan er ekki orðin átta. Hann fær far í vinnuna með Skúla bílstjóra þennan morguninn enda geisar ofsaveður í borginni en alla jafna gengur hann heim úr vinnu. Hann hefur ekki átt bíl í ellefu ár og er því óvanur þeim lúxus að hafa einkabílstjóra. Það þarf ekki að hafa áhyggjur af vafasömu akstursbókhaldi þessa ráðherra.

Hann borðar morgunmatinn á skrifstofunni. Að eigin sögn notar hann morgna og kvöld til að koma sér inn í málefni ráðuneytisins. Hann er þó vel inni í mörgum málum þess. Síðustu ár hefur Guðmundur Ingi sem alla jafna er kallaður Mummi nefnilega starfað sem framkvæmdastjóri náttúruverndarsamtakanna Landverndar. Ráðning hans í starf umhverfis- og auðlinda­ráðherra var því umdeild.

Hann hefur talað gegn veglagningu um Teigsskóg á sunnanverðum Vestfjörðum og viljað líta til fleiri valkosta í þeim efnum. Hið sama gildir um Hvalárvirkjun á Ströndum og hann hefur varað við því að farið verði of geyst í laxeldi. Svo fáein málefni séu talin upp sem hann þarf nú að glíma við á ráðherrastól.

Mummi er líffræðingur með meistaragráðu í umhverfisstjórnun frá Yale-háskóla í Bandaríkjunum og er einnig með hússtjórnarpróf frá Húsmæðraskólanum í Reykjavík.

„Í mínu fyrra starfi var tempóið hratt og krefjandi. En á allt annan hátt. Nú sit ég ofsalega marga fundi. Morgnarnir og kvöldin eru minn tími til að setja mig inn í mál. Þetta er mikil vinna en svo kannski róast þetta þegar maður er kominn inn í starfið. En þetta er það sem brennur á mér, það er því engin undankomuleið,“ segir Mummi.

Mummi er sveitastrákur í grunninn. Anton Brink
Á heimavist frá unga aldri

Mummi er sveitastrákur í grunninn. Hann er fæddur og uppalinn á Brúarlandi á Mýrum fyrir vestan Borgarnes. „Ég ólst þar upp til sextán ára aldurs. Ég var í skóla á Varmalandi í Borgarfirði og var á heimavist öll mín grunnskólaár. Þegar ég var sex ára var ég kannski eina nótt í viku á heimavistinni. Þegar ég var orðinn sjö ára var það ein vika í mánuði. Svona lengdist tíminn og þegar ég var orðinn tíu, ellefu ára gamall, þá var ég á heimavistinni allan veturinn, nema um helgar,“ segir Mummi. 

Aðskilnaðurinn frá fjölskyldunni fór ekki vel í hann. „Ég held að flestir geti sett sig í þessi spor. Það er erfitt að vera skilinn frá foreldrum sínum sjö ára gamall. Og vera þá fjórar nætur að heiman. Mér leið illa í skóla þar til ég varð um tíu ára. Ég var með mikla heimþrá og grét oft. En fólkið þarna var gott og skólinn líka,“ segir Mummi og rifjar það upp þegar hann tók að eigin sögn eina stærstu ákvörðun lífs síns.

Ákvað að hætta að gráta

„Ég á sterka minningu frá því ég er tíu ára gamall. Ég fer á klósettið og eiginlega sturta niður þessum kafla í lífi mínu. Ég segi bara við sjálfan mig: Nú er ég bara hættur þessu væli. Ég ætla aldrei aftur að gráta í skólanum eða láta mér líða illa í honum. Ef það gerist, þá finn ég einhverjar leiðir til að bæta það. Mér tókst að standa við þetta og þetta er stærsta ákvörðun sem ég hef tekið. Að skilja þessa vanlíðan eftir. Og ég stend staðfastlega við það,“ segir Mummi.

Leið Mumma lá í Menntaskólann á Akureyri. „Ég var í síðustu viku í MA að afhenda þeim Grænfánann, sem er viðurkenning fyrir vel unnin störf í umhverfismálum. Það fannst mér gaman. Skólameistarinn sagði af mér sögu sem ég var búinn að steingleyma. Þegar ég var í fjórða bekk var ég í umhverfisfræðiáfanga og því tengt komum við nokkur upp á svið og vildum hvetja nemendur til að reyna að draga úr pappírsnotkun. Ég kem með bala af vatni og sýni fólki hvernig það gæti þvegið sér um hendurnar og notað eina þurrku en ekki tíu. Ég bleytti á mér hendurnar og hristi af þeim tólf sinnum og tók svo eina þurrku til að þerra hendurnar. Þetta rifjaði skólameistarinn upp,“ segir Mummi.

Með hússtjórnarpróf

Nokkru eftir útskrift ákvað Mummi að mennta sig í Hússtjórnarskólanum í Reykjavík. „Ég lauk þaðan hússtjórnarprófi. Og var góður í bóklegum greinum,“ segir hann og brosir út í annað. Hann er reyndar ekki eini ráðherrann sem hefur tekið hússtjórnarpróf en Sigrún Magnúsdóttir, fyrrverandi umhverfisráðherra, er líka með hússtjórnarpróf.

„Þetta var skemmtilegt, maður lærði að þrífa. Lærði að vefa, svo saumaði maður allan andskotann og svo eitthvað að elda. Mér fannst vefnaðurinn skemmtilegastur. Það er svo mikil sköpun í honum. Ragnar Kjartansson var fyrsti karlmaðurinn sem fór í Hússtjórnarskólann í Reykjavík og ég var sá annar í röðinni, ásamt einum öðrum. Mamma mín er vefnaðarkennari og kenndi vefnað í Húsmæðraskólanum á Varmalandi,“ segir Mummi sem hefur vefnað eftir hana á veggjum heimilis síns í Vesturbænum.

Gekk í klaustur

Úr Hússtjórnarskólanum lá leið Mumma á nokkuð ævintýralegri stað. Í munkaklaustur. „Ég er með einhvers konar miðaldablæti. En það var nú reyndar mikill misskilningur, því þetta var mjög nútímalegt klaustur. Þeir ráku gullsmiðju, járnsmiðju, bakarí og menntaskóla. Það sem hefur ekki breyst er náttúrulega tilbeiðslan. Sem margir myndu líta á sem nokkurs konar hugleiðslu. Hún var sérstaklega góð á morgnana klukkan fimm. Það var uppáhaldstíminn minn. Ég var þar í tvo mánuði og ég íhugaði að gerast munkur en komst að því að ég trúði ekki nóg á guð,“ segir Mummi frá.

Hann fór heim til Íslands og nam líffræði við Háskóla Íslands. Eftir útskrift fór hann í nám til Bandaríkjanna í umhverfisstjórnun í Yale-háskóla. Hann hefur komið víða við í vinnu, og hefur meðal annars starfað á Veiðimálastofnun, hjá Háskóla Íslands og við landvörslu í þjóðgörðum. Hann hóf störf hjá Landvernd 2011 og sinnti þar starfi framkvæmdastjóra þar til hann settist á ráðherrastól.

Hæfið metið í ráðuneytinu

Mummi tók nýverið þá ákvörðun að segja Sif Konráðsdóttur, aðstoðarmanni sínum, upp störfum. Það vill svo til að á sama tíma hefur hann til meðferðar mál um friðun jarðar í eigu Sifjar og eiginmanns hennar. Friðunin gæti haft áhrif á lagningu Blöndulínu 3 en Sif hefur lengi barist gegn lagningu loftlínu í þessu sambandi. Um er að ræða jörðina Hóla í Öxnadal.

Ætlar hann að friða jörðina? „Nú eru sérfræðingar í ráðuneytinu að skoða hvort þeir telji mig hæfan eða ekki til að fjalla um málið. Ég get ekki tjáð mig um málið þess vegna og verð því eiginlega að vísa þessari spurningu frá. En ég mun taka afstöðu til þess þegar það er komin niðurstaða í það mál,“ segir Mummi.

En hvað með hæfi í málum sem þú hefur áður kært fyrir hönd Landverndar? Sem eru mörg, línulagnir, virkjanaleyfi og fleira? „Það er þannig að í langflestum tilvikum geta málsaðilar skotið málum er varða umhverfi og skipulag til óháðrar úrskurðarnefndar séu þeir ósáttir við ákvarðanir sem stjórnvöld hafa tekið. Fjöldi stjórnmálamanna hefur tjáð sig um alls konar mál og orðið svo ráðherrar en það þýðir ekki sjálfkrafa að þeir verði vanhæfir í viðkomandi máli. 

Umræðan um mögulegt vanhæfi á hins vegar fyllilega rétt á sér. Lögin kveða á um að ráðherrar meta sjálfir sitt eigið hæfi en áður en þeir gera það fá þeir leiðbeiningar sérfræðinga í viðkomandi ráðuneyti. Þetta snýst um að vanda sig og það ætla ég að gera, bæði þegar kemur að friðlýsingu Hólahóla sem og í öðrum málum.“

Efasemdir um vegi um Teigsskóg

Sem fyrr segir hefur Mummi einnig lýst yfir efasemdum um framkvæmdina sem Vegagerðin leggur til með vegi í gegnum Teigsskóg. Nýlega lét Vegagerðin gera umhverfismat á ólíkum valkostum og telur eftir það mat að vegur um Teigsskóg sé besti kosturinn.

„Þessi leið sem Vegagerðin leggur til að verði farin veldur meiri umhverfisáhrifum samkvæmt umhverfismati en svokölluð jarðgangaleið. Það er niðurstaða Skipulagsstofnunar, byggt á umhverfismatinu, að umhverfisáhrifin af jarðgangaleiðinni séu minnst. Þau eru samt mikil. Það má kannski segja að í stöðunni sé enginn frábær kostur. Nú er boltinn hjá sveitarstjórninni sem þarf að gera breytingar á skipulagi svæðisins. 

Ég held að það sé mjög mikilvægt að það náist niðurstaða í þetta mál. Svo þarf Skipulagsstofnun að grípa boltann með yfirferð á skipulaginu. Ég held það þurfi bara að bíða eftir því. Út frá umhverfis- og náttúruverndarsjónarmiðum skiptir mestu máli að horfa til vistkerfa sem njóta sérstakrar verndar samkvæmt náttúruverndarlögum, svo sem sjávarfitja og leira. Og hið sama gildir um birkiskógana.“

Laxeldið komið til að vera

Og þá að laxeldi sem þú hefur haft efasemdir um? „Laxeldi er komið til að vera og er mikilvægur atvinnuvegur fyrir Vest- og Austfirðinga. Við þurfum hins vegar að passa mjög vel upp á villta laxastofna sem eru mjög mikilvægir líffræðilega og þróunarfræðilega séð og ólíkir norska eldislaxinum. Þetta er spurning um langtímaáhrif á erfðafræði íslenska laxins og við megum ekki gleyma að laxveiði er gríðarlega efnahagslega mikilvæg víða um land.

Þarna þurfum við að vera með kerfi sem tryggir til framtíðar að sem allra, allra minnst og helst engin erfðablöndun verði. Það er stóra málið í þessu. Það er spurning hvort það sé hægt og þá hvernig, það er alvöru verkefni. Fiskeldi heyrir ekki undir mig, en mengunin af því gerir það.“

Sóknarfæri í samgöngumálum

Íslendingar þurfa að standa við skuldbindingar Parísarsamkomulagsins árið 2030. Þrátt fyrir það hafa Íslendingar við að auka losun á meðan aðrar þjóðir hafa minnkað hana. Fyrri ríkisstjórn lagði til að hækka kolefnisgjald um 100%. Þessi ríkisstjórn lækkaði það hlutfall um helming. 

Af hverju? Hvernig ætlar þú að ná markmiðum Parísarsamkomulagsins? „Við erum í fyrsta lagi að horfa á markmið Parísarsamkomulagsins um 40% minnkun á losun gróðurhúsalofttegunda fyrir árið 2030 – það er eitt. Hitt er svo þetta kolefnishlutleysi árið 2040 sem talað er um í sáttmála ríkisstjórnarinnar. Auðvitað vinnur þetta saman. 

Við í ráðuneytinu erum þessa dagana að vinna að aðgerðaáætlun sem miðar að því að ná þessum 40% samdrætti fyrir árið 2030 með fjölþættum aðgerðum, sem munu koma við flesta ef ekki alla geira samfélagsins. Eins verður sett á stofn loftslagsráð í samræmi við þingsályktunartillögu sem Katrín Jakobsdóttir fékk samþykkta fyrir nokkrum misserum. Fyrsta verkefni loftslagsráðsins verður að búa til vegvísi um kolefnishlutleysi,“ segir Mummi og bætir við að helstu sóknarfærin séu í samgöngum. Þar megi draga verulega úr losun gróðurhúsalofttegunda. Það þurfi því áfram að stuðla að rafbílavæðingu Íslendinga.

Mummi nefnir einnig fleiri nauðsynleg verkefni sem koma við loftslagsmálin, svo sem landgræðslu, skógrækt og endurheimt votlendis.Anton Brink
Styðja áfram rafbílavæðingu

„Ríkisstjórnin beitti sér fyrir því að um áramótin voru framlengdar ívilnanir fyrir rafbíla, metanbíla og aðrar slíkar bifreiðar sem losa minna en hefðbundnir bílar. Það þarf líka að halda áfram að byggja upp net hraðhleðslustöðva um allt land og um leið tryggja að einstaklingar geti hlaðið bílana með einföldum hætti heima hjá sér. Þá eru fjölmörg sóknarfæri í sjávarútvegi, landbúnaði og ferðaþjónustu. Í úrgangsmálum er brýnast að hverfa frá urðun á lífrænu sorpi þar sem það losar mikið magn öflugra gróðurhúsalofttegunda. Núna erum við að teikna upp aðgerðir í þessa veru, sem byggja að hluta á vinnu fyrri ríkisstjórnar. Næsta skref er svo að tímasetja þær og kostnaðargreina og meta hversu miklu hver aðgerð mun skila,“ segir Mummi.

„Fljótlega hefjast samningaviðræður okkar við Evrópusambandið um hlutdeild Íslands í þessu heildarmarkmiði um 40% samdrátt. Og við munum þurfa að endurskoða aðgerðaáætlunina þegar það liggur fyrir hvað kemur út úr því. Við munum leggja hana fram í ár og svo endurskoða hana þegar viðræðum er lokið.“

Kolefnisgjaldið málamiðlun

Um síðastliðin áramót var kolefnisgjaldið, sem lagt er á bensín og dísilolíu, hækkað um 50%. „Það var fyrirhuguð hærri hækkun en þar sem kolefnisgjaldið bitnar meira á þeim sem þurfa að fara um lengri veg var ákveðin málamiðlun að byrja þarna. Hins vegar er í stjórnarsáttmálanum ákvæði um að skoða þessa grænu skatta og sjá hvernig má koma þeim fyrir til framtíðar. Sú vinna er í gangi í fjármálaráðuneytinu.“

Mummi nefnir einnig fleiri nauðsynleg verkefni sem koma við loftslagsmálin, svo sem landgræðslu, skógrækt og endurheimt votlendis. „Það er ekki ljóst hversu mikið við getum talið slíkar aðgerðir fram gagnvart Parísarsamkomulaginu. Hins vegar er alveg ljóst að við þurfum ekki að bíða eftir þeim. Við getum gert okkar plön, varðandi landgræðslu og endurheimt votlendis, og slíkt er nauðsynlegt ef við ætlum að ná markmiðum okkar um kolefnishlutleysi. Þá verðum við að ganga rösklega til verks.“

Hann bendir á að hann vilji einnig ná góðu samtali við atvinnugreinar landsins. Stóriðjuna og flugið. „Það verða allir að vera með í þessu verkefni.“

Ekki beittur þrýstingi

Er staða þín við ríkisstjórnarborðið veik? Þar sem þú ert sá eini sem ekki er kjörinn alþingismaður? Máttu borða í mötuneytinu? „Já! Og maturinn þar er mjög góður. En grínlaust, þá hef ég öll sömu réttindi og þingmenn nema að ég má ekki greiða atkvæði. Ég starfa náttúrulega bara í umboði míns formanns við ríkisstjórnarborðið. Ég held að staða mín sé ekkert veikari en annarra. Ég er bara að reyna að vinna vinnuna mína og hef ekki leitt hugann að þessu.“

Finnur þú fyrir miklum þrýstingi frá vinum og félögum úr landverndarbransanum? „Nei, ekki ennþá, nema bara jákvæðni og stuðning. Ég held að fólk sé að gefa mér tækifæri til að sanna mig.“

Hver er mesta náttúruperlan? „Það er tvímælalaust hálendi Íslands og þá margir staðir þar.“

Vill meiri sátt

Hver eru brýnustu verkefni þín hér? „Það eru fjórir þættir sem ég vil leggja áherslu á. Það eru loftslagsmálin, náttúruvernd, málefni sem tengjast neyslusamfélaginu og að finna leiðir til að auka þátttöku almennings í ákvarðanatöku um umhverfismál. Ekki síst með það að leiðarljósi að skapa meiri sátt um það sem við gerum í samfélaginu,“ segir Mummi og segist tala af reynslu.

„Það hafa verið stór deilumál í samfélaginu sem tengjast náttúruvernd og auðvitað er fólk oft ósammála í grundvallaratriðum. Ég er hins vegar þeirrar skoðunar að ef fólk talar saman og ef almenningur tekur þátt í ferlinu strax frá byrjun þegar verið er að móta hugmyndir og tillögur þá megi forðast deilur sem koma upp á seinni stigum. Þá eru meiri líkur á að hægt sé að ná sátt í málum.“

Matarsóun og plastnotkun

Hvað varðar neysluna, þá eru umhverfisvænni samgöngur, matarsóun og plastnotkun gríðarlega mikilvæg mál að takast á við að mati ráðherra.

„Þá er ég ekki síst að horfa til þess hvað einstaklingar, samfélög, fyrirtæki og stofnanir geta gert. Það er stórt hagsmunamál fyrir okkur öll að tekist sé á við matarsóun og plastnotkun sem ógnar heimshöfunum. Sömuleiðis þurfum við að endurskoða samgöngurnar okkar – hvernig við komum okkur í og úr vinnu. Úrgangsmál eru svo stórt umhverfismál en þar er auðvitað bara á ferðinni hin hliðin á neyslunni því allt það sem við kaupum og neytum endar fyrr eða síðar sem úrgangur sem við þurfum að losa okkur við með einum eða öðrum hætti eða nýta áfram í takti við hringrásarhagkerfið.“

Þjóðgarðurinn stærsta verkefnið

Náttúruverndin er honum kærust. „Þar er náttúrulega stærsta verkefnið stofnun þjóðgarðs á miðhálendi Íslands. Þetta er okkar stærsta framlag í náttúruvernd til heimsbyggðarinnar. Þarna erum við að tala um stórt, óbyggt svæði þótt fólk heimsæki það allan ársins hring. Það er viðkvæmt og verðmætt og geymir miklar andstæður, hvort heldur er í landslagi, gróðri eða í jarðfræði. 

Þetta er undraveröld enda verður fólk agndofa við að kynnast því. Í þessum hraða heimi er ómetanlegt að eiga staði þar sem hægt er að upplifa kyrrð og komast í tengsl við náttúruna. Það er því eitt af okkar mikilvægustu verkefnum að halda utan um það og setja leikreglur um það hvernig við förum með þessa auðlind,“ segir Mummi.

Efnahagsleg tækifæri

„Hugmyndin er að stofna þjóðgarð og skipta honum upp í svæði. Á sumum svæðum eru kannski bara stundaðar rannsóknir. Á öðrum svæðum er mögulega sauðfjárrækt, á öðrum skotveiði, svo eru svæði sem eru fyrst og fremst fyrir fólk og útivist. Þannig þjóðgarður myndi líka skapa ótrúlega spennandi tækifæri fyrir nærliggjandi byggðir og þá er ég að tala um efnahagsleg tækifæri. 

Þetta er hvoru tveggja, byggðamál og náttúruverndarmál. Í því sambandi má benda á nýja rannsókn sem sýnir að Snæfellsjökulsþjóðgarður er árlega að skila 3,9 milljörðum í þjóðarbúið og 1,8 milljarðar verða eftir á Snæfellsnesinu. Þetta skiptir líka máli, því þjóðgarðar skapa störf og þjónustu. Þetta er stóra verkefnið mitt.“

Friðlýst svæði hafa aðdráttarafl

Hann nefnir líka friðlýsingar og segir að þar sé verk að vinna.

„Þar vil ég einmitt líta til þessara fjölbreyttu þátta og skapa störf í kringum friðlýsingar. Tengja þetta tvennt saman. Friðlýst svæði hafa aðdráttarafl en það er auðvitað mikilvægt að ferðaþjónustan okkar þróist í sátt við náttúruna og samfélagið. Í því sambandi þarf að byggja upp innviði á mörgum ferðamannastöðum. Þar er líka heilmikil vinna fram undan við að afla og miðla þekkingu um það hvernig við byggjum þessa innviði upp. Við hljótum að vilja að þeir falli sem best að náttúrunni. Og það er fyrirhugað að setja fjármagn í þessa þætti,“ segir Mummi og nefnir að hann hafi skoðað verklag Skota og Íra í þessum efnum. 

„Svo þurfum við að gera upp við okkur hvort við viljum að alls staðar verði byggðir upp innviðir. Eða viljum við eiga einhver svæði með litlum eða engum innviðum og beita þá frekar fjöldatakmörkunum á þau svæði. Ég er þeirrar skoðunar að það gæti verið góð leið.“

…og lúpínan!

Hann nefnir einnig landgræðsluna og að þar sé mikið verk fram undan. Blaðamaður stenst ekki mátið og spyr hann út í lúpínuna.

Þú elskar að hata lúpínu? Er það ekki? Nei! segir Mummi. „Ég vil ekki nálgast eina plöntutegund út frá því hvort ég elski eða hati. Ég vil líta á þetta út frá því hvort viðkomandi plöntutegund sem í þessu tilviki er gríðarlega sterk landgræðslujurt sé að ógna náttúrulegum búsvæðum. Hún hefur gert það víða. Þarna verðum við að horfa til þess að hún á til dæmis ekki heima á friðlýstum svæðum þar sem við ætlum að vernda náttúruna og viljum að hún þróist á eigin forsendum, eða á hálendinu og reyndar víðar. Þetta eru svæði sem ég held að við getum verið sammála um að við eigum að halda henni frá. Þetta er fjöreggið okkar sem við verðum að passa að varðveita.“


Tengdar fréttir

Sif telur ráðherrann sinn ekki vanhæfan

Umhverfisráðherra hefur til meðferðar mál um friðun jarðar í eigu Sifjar Konráðsdóttur, aðstoðarmanns síns. Friðunin gæti komið í veg fyrir lagningu Blöndulínu 3. Sif og maður hennar hafa barist gegn lagningu línunnar, en hún telur




Fleiri fréttir

Sjá meira


×