Lífið

Hundur skaut eiganda sinn í bringuna

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Charlie, sem skaut eiganda sinn, er Rottweiler-blendingur. Myndin tengist efni fréttarinnar ekki beint.
Charlie, sem skaut eiganda sinn, er Rottweiler-blendingur. Myndin tengist efni fréttarinnar ekki beint. Vísir/Getty
Bandaríkjamaðurinn Tex Harold Gilligan varð fyrir slysaskoti af völdum eins þriggja veiðihunda sinna þegar hann var við kanínuveiðar í New Mexico-fylki í Bandaríkjunum nú fyrir helgi.

„Árásarmaðurinn“ sem um ræðir er 55 kílóa Rottweiler-blendingur að nafninu Charlie en hann sat í framsæti bíls eiganda síns þegar hann flækti loppuna í gikk riffils Gilligan. Það olli því að skoti var hleypt af, sem hæfði veiðimanninn í bringuna.

Gilligan, sem er 74 ára, þrírifbeinsbrotnaði og viðbeinsbrotnaði, auk þess sem hann hlaut lungnaskaða af slysaskotinu.

„Það [skotið] fór í gegn um lungun mín og rústaði hægra viðbeininu mínu,“ hefur ABC eftir Gilligan, sem sagðist fyrst um sinn hafa talið leyniskyttu hafa skotið á hann úr fjarlægð.

„Ég hugsaði með mér hver þetta gæti verið. Ég var þarna einn, það var enginn nálægt mér.“

Þá sagðist veiðimaðurinn ekki leggja það í vana sinn að taka farsíma með sér á veiðar, en hann hefði ákveðið að hafa hann meðferðis að þessu sinni ef ske kynni að hann þyrfti að ná sambandi við börnin sín, vegna slæms veðurfars að undanförnu. Það varð til þess að Gilligan gat hringt í neyðarlínuna.

Hann var svo fluttur með sjúkraflugi á nærliggjandi spítala. Rannsakendur málsins telja næsta víst að hundurinn Charlie hafi flækt loppuna í gikk byssunnar sem olli því að skoti var hleypt af.

Gilligan sagðist þó hafa húmor fyrir atvikinu.

„Ég hélt að svona gæti ekki gerst. „Hundur skýtur mann.“ Hann [Charlie] ætlaði ekki að gera þetta, hann er góður hundur.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.