Lífið

Töframaðurinn og leikarinn Ricky Jay er látinn

Atli Ísleifsson skrifar
Ricky Jay fór meðal annars með hlutverki í Bond-myndinni Tomorrow Never Dies.
Ricky Jay fór meðal annars með hlutverki í Bond-myndinni Tomorrow Never Dies. Getty/Paul Archuleta
Bandaríski töframaðurinn og leikarinn Ricky Jay er látinn, 72 ára að aldri. Jay var talinn einn hæfileikasti töframaður heims, en hann gerði einnig garðinn frægan í kvikmyndum á borð við Boogie Nights, Magnolia og Bond-myndinni Tomorrow Never Dies.

Hann hét raunverulega Richard Jay Potash, fæddist í New York og byrjaði að koma fram sem töframaður þegar fjögurra ára gamall. Hann er talinn einn fyrsti töframaðurinn sem byrjaði að troða upp á grín- og næturklúbbum.

Í frétt BBC kemur fram að hann hafi einnig verið þekktur fyrir getu sína að kasta spilum úr spilastokk langar leiðir. Í Heimsmetabók Guinness segir að hann hafi eitt sinn kastað spili úr spilastokk heila 58 metra þar sem það mældist mest á 145 kílómetra hraða.

Í Bond-myndinni Tomorrow Never Dies fór hann með hlutverk ómennisins og tölvuþrjótsins Henry Gupta sem starfaði á snærum aðal vonda karlsins, Elliot Carver. Í Boogie Nights, mynd Paul Thomas Anderson frá árinu 1997, fór hann með hlutverk Kurt Longjohn og þá talaði hann inn á kvikmynd Anderson frá 1999, Magnolia. Einnig má nefna að hann fór með hlutverk Eddie Sawyer í fyrstu þáttaröð Deadwood.

Starfsbræður hans úr töframanna- og leikarastétt hafa minnst Jay, meðal annars Penn Jilette úr tvíeykinu Penn & Teller og leikarinn Neil Patrick Harris.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.