Erlent

Hótar ofsóknum á hendur pólitískum andstæðingum

Kjartan Kjartansson skrifar
Bolsonaro er þekktur fyrir ofstæki og hatursorðræðu. Hann hótar andstæðingum sínum nú ofsóknum.
Bolsonaro er þekktur fyrir ofstæki og hatursorðræðu. Hann hótar andstæðingum sínum nú ofsóknum. Vísir/EPA
Jair Bolsonaro, öfgahægrimaðurinn sem nær öruggt er talið að verði kjörinn forseti Brasilíu um helgina, segir að pólitískir andstæðingar sínir muni hrökklast úr landi eða enda í fangelsi. Hótaði hann „hreinsun“ sem engin fordæmi væru um í sögu landsins.

Skoðanakannanir benda til þess að Bolsonaro vinni afgerandi sigur á Fernando Haddad, frambjóðanda Verkamannaflokksins, í seinni umferð forsetakosninganna á sunnudag. Í ávarpi til stuðningsmanna sinna boðaði Bolsonaro afturhvarf til tíma herforingjastjórna sem réðu ríkjum í landinu á 20. öld.

„Þessir rauðu útlagar verða hraktir á brott frá heimalandi okkar. Það verður hreinsun sem hefur aldrei sést áður í brasilískri sögu,“ sagði Bolsonaro í myndbandsávarpi sem hann sendi út á netinu, að því er segir í frétt The Guardian.

„Annað hvort fara þeir úr landi eða þeir fara í fangelsi,“ hótaði Bolsonaro við mikinn fögnuð þúsunda stuðningsmanna hans sem voru samankomnir til að hlýða á ávarpið. Frambjóðandinn er sjálfur að ná sér af stungusári á heimili sínu í Ríó de Janeiro.

Nefndi harðlínumaðurinn ákveðna hópa sem yrðu sérstaklega teknir fyrir þegar hann kemst til valda. Kallaði hann félaga í samtökum landlausra bænda „þrjóta“ sem yrðu skilgreindir sem hryðjuverkamenn. Þá myndi hann láta Lula da Silva, fyrrverandi forseta, „rotna í fangelsi“ ásamt öðrum flokkssystkinum hans úr Verkamannaflokknum. Silva afplánar nú dóm vegna spillingar.

Haddad sagði að Bolsonaro hefði með ummælum sínum hótað lífi andstæðinga sinna.

„Við verðum að verja lýðræðislegt réttarríkið. Hvernig getur fólk fundið til öryggis ef hann hótar þeim sem hafa aðrar skoðanir en hann?“ tísti Haddad.


Tengdar fréttir

Haddad sakar Bolsonaro um kosningasvindl

Brasilíski forsetaframbjóðandinn Fernando Haddad hefur sakað andstæðing sinn, hægriöfgamanninn Jair Bolsonaro, um að dreifa lygum um sig á samfélagsmiðlum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×