Erlent

Faðir fórnarlambs skotárásarinnar í Parkland syrgir á afmælisdegi dóttur sinnar

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Fred Guttenberg hefur barist fyrir hertri byssulöggjöf í Bandaríkjunum síðan dóttir hans var skotin til bana í skotárás í Marjory Stoneman Douglas-framhaldsskólanum í Flórída.
Fred Guttenberg hefur barist fyrir hertri byssulöggjöf í Bandaríkjunum síðan dóttir hans var skotin til bana í skotárás í Marjory Stoneman Douglas-framhaldsskólanum í Flórída. Vísir/Getty
Fred Guttenberg, faðir Jamie Guttenberg sem var skotin til bana ásamt sextán öðrum í skotárás í framhaldsskóla í Parkland í Flórída í febrúar, minntist dóttur sinnar á Twitter í gær. Jamie hefði orðið 15 ára þann dag, 13. júlí.

Sjá einnig: „Ég myndi aldrei sitja þarna og leyfa krökkunum mínum að vera slátrað“

„Til hamingju með afmælið elskan mín!!! Í dag hefði Jamie átt að verða 15 ára. Ég ætti að vera að fylgja henni í ökutíma. Fjölskylda hennar og vinir ættu að vera að fagna með henni. Í dag er Jamie enn þá 14 ára. Hún verður 14 ára að eilífu,“ skrifar Fred.

„Vegna byssuofbeldis munum við ekki halda upp á afmælið hennar. Í staðinn grátum við og syrgjum. Í dag hugsa ég um alla hlutina sem ég óska þess að ég gæti gert með þér, einfalda hluti á borð við að horfa með þér á uppáhalds sjónvarpsþættina okkar.“

Hluta af tístum Freds má sjá hér að neðan og restina má nálgast á Twitter-reikningi hans hér.

Fred segir í samtali við vefinn Mashable að hann hafi stofnað Twitter-reikning nokkrum vikum eftir að dóttir hans var myrt. Það hafi hann gert til þess að berjast fyrir hertri byssulöggjöf í Bandaríkjunum og vekja athygli á ofbeldi tengdu skotvopnum.

Fred hefur verið einna háværastur í hópi þeirra foreldra sem misstu börn sín í skotárásinni í Marjory Stoneman Douglas-framhaldsskólanum í febrúar í fyrra. Hann hefur breitt út boðskapinn síðustu mánuði og ítrekað komið fram í fjölmiðlum.

Móðir Jamie, Jennifer Bloom Guttenberg, minntist dóttur sinnar einnig í gær. Hún notar tækifærið og kallar eftir byssulöggjöf í Bandaríkjunum, sem sé í samræmi við „heilbrigða skynsemi.“

Sautján létust þegar byssumaður hóf skothríð í áðurnefndum Marjory Stoneman Douglas-framhaldsskóla í Flórída. Hópur nemenda sem komst lífs af úr árásinni hefur komið af stað gríðarstórri hreyfingu undir formerkjunum March For Our Lives, eða Göngum fyrir lífi okkar, sem berst fyrir hertri byssulöggjöf í Bandaríkjunum.


Tengdar fréttir

Árásin í Parkland breytti litlu

Skólaskotárásin í Parkland í Flórída, þar sem sautján nemendur voru myrtir, hafði engin varanleg áhrif á afstöðu Bandaríkjamanna gagnvart skotvopnaeign.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×