Vigdís Hauksdóttir, fyrrverandi þingmaður Framsóknarflokksins, mun leiða lista Miðflokksins í komandi kosningum í Reykjavík. Tilkynnt var um valið á opnunarhátíð nýs húsnæðis flokksins í gærkvöldi. Þetta verður í fyrsta skipti sem hinn nýstofnaði flokkur býður fram krafta sína í sveitarstjórnarkosningum.
„Þetta verður kosningasigur sem tekið verður eftir. Nú kemur Miðflokkurinn til með að blanda sér með afgerandi hætti inn í umræðuna um borgarmálin,“ segir Vigdís. Hún bætir því við að það sé mikill meðbyr með Miðflokknum á höfuðborgarsvæðinu. Hún hafi gert sér grein fyrir því löngu áður en hún tók ákvörðun um að fara í framboð.
Vigdís vill hins vegar ekki tjá sig um málefnin sem flokkurinn ætlar að einbeita sér að í kosningabaráttunni. Segir einungis að það sé mikið verk að vinna í borginni. „Það er flokksráðsfundur á morgun [í dag]. Þannig við skulum láta helgina líða áður en það verður talað um málefnin.“
Þessi fyrrverandi þingmaður Framsóknarflokksins segir að það eigi ekki að koma neinum á óvart að hún fari nú fram fyrir Miðflokkinn, ekki Framsóknarflokkinn. „Ég er í Miðflokknum og hef fylgt formanni Miðflokksins alla tíð.“
Stjórn Miðflokksfélags Reykjavíkur ákvað að kynna Vigdísi sem oddvita fyrr en áætlað var. Lokafrestur til að skila inn öðrum framboðum er klukkan 12.00 laugardaginn 17. febrúar.
Þann 24. febrúar mun svo stjórn Miðflokksfélagsins kynna sex efstu frambjóðendur á framboðslistanum fyrir sveitarstjórnarkosningarnar þann 28. maí.
Innlent
Boðar sigur sem tekið verður eftir
Tengdar fréttir
Vigdís leiðir Miðflokkinn í borginni
Vigdís Hauksdóttir, fyrrverandi þingkona Framsóknarflokksins, mun leiða lista Miðflokksins í Reykjavík í sveitarstjórnarkosningunum í vor.