Innlent

Niðurrif á áætlun eftir tafir vegna kæru

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Það sem eftir stendur af Kárnsesskóla.
Það sem eftir stendur af Kárnsesskóla. Vísir/Vilhelm
Niðurrif á Kársnesskóla í Kópavogi mun klárast í janúar og er á áætlun samkvæmt upplýsingum frá Kópavogsbæ. Í upphafi var áætlað að verklok yrðu 31. ágúst en kærumál tafði það að niðurrifið gæti hafist.

Bæjarfulltrúinn fyrrverandi Ómar Stefánsson, vakti athygli á framgangi niðurrifsins í Facebook-hópnum Kársnesið okkar og fannst honum framkvæmdirnar ganga heldur hægt, miðað við í fyrstu var gert ráð fyrir að verkinu yrði lokið 31. ágúst samkvæmt útboði.

Töluverðar umræður spunnust í kjölfarið í þræðinum um skólann og þótti mörgum sorglegt að sjá hinn 60 ár gamla skóla hverfa smátt og smátt þrátt fyrir að flestir þeirra sem lögðu orð í belg gerðu sér grein fyrir því að byggingin hafi verið orðin óheilsusamleg sökum raka og myglu.

Stórvirkar vinnuvélar munu sjá um að rífa það sem eftir er.Vísir/Vilhelm
Ástæðan fyrir töfunum er sú að útboð Kópavogsbæjar vegna niðurrifs skólans var kært en fyrirtækið sem átti næstlægsta tilboðið í niðurrifið taldi tilboð fyrirtækisins sem átti lægsta tilboðið ógilt þar sem tiltekin gögn hafi ekki fylgt með tilboðinu.

„Meðan það var að ganga í gegnum kerfið var ekkert hægt að gera þannig að niðurrifið hófst í haust þegar niðurstaða í kærumálinu lá fyrir,“ segir Sigríður Björg Tómasdóttir, upplýsingafulltrúi Kópavogsbæjar í samtali við Vísi.

Hafist var handa í október við að rífa skólann. Líkt og sjá má á meðfylgjandi myndum sem teknar voru í dag virðist töluverð vinna vera eftir en Sigríður Björg segir þó að tímafrekustu vinnunni sé lokið.

„Skelin stendur en það sem er búið að gera og er langseinlegast er að taka allt innvolsið og flokka það. Svo verður skelin tekin með stórvirkum vinnuvélum,“ segir Sigríður Björg sem gerir ráð fyrir að verkið klárist í janúar.

Hönnun á nýjum skóla og leikskóla á skólalóðinni stendur nú yfir og gert er ráð fyrir að þeirri vinnu verði lokið í sumar. Þegar hönnuninn liggur fyrir verða framkvæmdir á nýjum byggingum boðnar út.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×