Innlent

Unnið að því að stjórnvöld viðurkenni innanlandsflug sem hluta af almenningssamgöngum

Jóhann K. Jóhannsson skrifar
vísir/ernir
Samgönguráðherra segir unnið að því að innanlandsflug verði viðurkennt sem hluti af almenningssamgöngukerfinu. Einhver hundruð milljóna þarf til þess að koma flugvöllum á landsbyggðinni í viðunandi horf.

Á málþingi Isavia stóð fyrir í gær um framtíð innanlandsflugs á Íslandi kom fram á ástand flugvalla sé bágborið og sé viðhaldsþörf þeirra sé orðin mikil. Framkvæmdastjóri flugvallasviðs Isavia sagði í kvöldfréttum Stöðvar 2 í gær að komi ekki til meira fjármagn á næstu þremur til fimm árum þurfi stjórnvöld að taka ákvörðun um hvaða flugvöllum skuli halda opnum og hverjum skuli loka.

Samgönguráðherra segir að málin sé til skoðunar hjá ráðuneytinu.

„Það er eiginlega engin ánægður með kerfið eins og það er í dag og við erum svona að skoða það með tilliti til þess að auka flugið sem almenningssamgöngur. Það er til að mynda verið að skoða svokallaða skoska leið en við erum líka bara í tengslum við samgönguáætlun sem við erum að vinna að, að reyna að samþætta þetta saman en síðan þá líka að hvernig við munum fjármagna til næstu ára þetta flug á innanlandsflugvellina,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson, samgönguráðherra.

Með því verður innanlandsflug viðurkennt sem hluti af almenningssamgöngukerfinu.

„Í stjórnarsáttmálanum vorum við að tala um það að, að það þyrfti að auka almenningssamgöngur á öllu landinu og hluti af því væri að taka flugið þar inn í,“ segir Sigurður.

Ráðherra er meðvitaður um að töluverðar fjárhæðir þurfi til þess að koma flugvöllum á landsbyggðinni í viðunandi horf.

Hvernig metur þú innanlandsflugið í dag?

„Ég mundi meta það þannig að það haltri. Það eru ekkert endilega mjög margir hundruð milljóna sem við þurfum að bæta í, en það eru einhverjir slíkir hundrað milljóna kallar sem við þurfum að bæta í flugið og við þurfum að kortleggja hvernig það gerist á sem skynsamlegastan hátt því eitt að lykilatriðum í stefnu ríkisstjórnarinnar er að þjónusta landsmanna sé eins við alla hvar sem þeir búa,“ segir Sigurður.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×