Innlent

Eva Joly mætir á hrunráðstefnu í Háskólanum

Atli Ísleifsson skrifar
Eva Joly var sérstakur ráðgjafi íslensku ríkisstjórnarinnar í kjölfar bankahrunsins 2008.
Eva Joly var sérstakur ráðgjafi íslensku ríkisstjórnarinnar í kjölfar bankahrunsins 2008. Vísir/Getty
Eva Joly, rannsóknardómari og Evrópuþingkona, verður meðal heiðursgesta á ráðstefnu Háskóla Íslands um bankahrunið 2008 dagana 5. og 6. október. Joly var árið 2009 ráðin sérstakur ráðgjafi íslensku ríkisstjórnarinnar vegna bankahrunsins.

Tilgangur ráðstefnunnar er að miðla og ræða niðurstöður nýlegra rannsókna á aðdraganda og afleiðingum af hruni íslenska bankakerfisins haustið 2008. Á dagskrá eru um hundrað fyrirlestrar í yfir tuttugu málstofum sem munu fjalla um þær víðtæku breytingar og áhrif sem hrunið hafði í för með sér í íslensku samfélagi og þá lærdóma sem hægt er að draga af því.

Ráðstefnan gengur undir nafninu „Hrunið, þið munið“ og fer fram í aðalbyggingu háskólans. Auk Joly verður Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, og Ralph Catalano, prófessor í lýðheilsu við Berkeley-háskóla í Bandaríkjunum, sérstakir gestir ráðstefnunnar.

Ráðstefnan verður öllum opin og er aðgangur ókeypis, en nálgast má dagskrá ráðstefnunnar á vef Háskóla Íslands.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×