Þverpólitísk sátt hefur verið um borgarlínuna sem er í þróun til að auðvelda samgöngur innan höfuðborgarsvæðisins en Eyþór Arnalds, sem býður sig fram til forystu fyrir Sjálfstæðisflokkinn í borginni, sagði í viðtali í fréttum okkar í gær að borgarlínan leysi ekki umferðarvanda Reykvíkinga heldur hjálpaði öðrum sveitarfélögum að tengjast borginni.
Af hinum fjórum sem bjóða sig fram í leiðtogakjöri Sjálfstæðisflokksins í borginni eru tveir sammála Eyþóri.
„Reykjavík er ekki með þessa legu að hún geti borið þessar borgarlínu. Hún mun kosta offjár fyrir skattgreiðendur. Þetta er ekki lausnin á umferðarvandanum,“ segir Viðar Guðjohnsen.
„Ég vil efla almenningssamgöngur eins og þær eru núna með Strætó og alveg á móti því að fara að leggja upp undir hundrað milljarða króna í nýtt kerfi sem enginn veit hvað er,“ segir Kjartan Magnússon.
Áslaug Friðriksdóttir hefur aftur á móti talað fyrir þróun borgarlínu og þátttöku Reykjavíkur í verkefninu.

Vilhjálmur Bjarnason er óljósari í svörum sínum en bendir á að sjálfstæðismenn á suðvesturhorninu hafi sameinast um að bæta samgöngur. Hann segist vilja halda áfram að efla almenningssamgöngur á svæðinu.
“Það getur vel verið að maður geti kallað þetta borgarlínu en hvað er borgarlína? Er borgarlína á sporvagni eða er hún í strætisvögnum? Það er sú spurning sem þarf að svara. Það þarf að halda áfram að þróa almenningssamgöngur,” segir Vilhjálmur þegar hann er inntur eftir því hvort hann sé fylgjandi þróun borgarlínunnar.