Innlent

Söfnuðu yfir 500 skópörum fyrir börn í Nígeríu

Sylvía Rut Sigfúsdóttir skrifar
Forsetafrúin Elíza Reid var ásamt börnum sínum í fyrsta ráshópi
Forsetafrúin Elíza Reid var ásamt börnum sínum í fyrsta ráshópi Mynd/SOS Barnaþorpin
Yfir fimm hundruð pör af íþróttaskóm söfnuðust í góðgerðar- og fjölskylduhlaupinu Skór til Afríku sem haldið var í fyrsta sinn við Rauðavatn í dag. Hundruð tóku þátt og ýmist hlupu eða gengu þriggja og hálfs kílómetra leið með hnum ýmsu hindrunum kringum vatnið. 

Forsetafrúin Elíza Reid var ásamt börnum sínum í fyrsta ráshópi og komu þau fyrst í mark en Elíza er einn af velgjörðarsendiherrum barnahjálparsamtakanna SOS Barnaþorpanna á Íslandi. Þátttökugjaldið var eitt vel með farið par af íþróttaskóm sem sendir verða til barna og ungmenna í SOS Barnaþorpunum í Nígeríu en landið varð fyrir valinu í þetta sinn af því að Ísland og Nígería eru saman í riðli á HM í fótbolta. 

„SOS Barnaþorpin eru stærstu einkareknu barnahjálparsamtökin í heiminum og eru fjögur slík þorp í Nígeríu. Skórnir sem söfnuðust í dag verða sendir út eftir helgi og munu koma að góðum notum. 60 prósent íbúa Nígeríu lifa undir fátæktarmörkum,“ segir í tilkynningu um viðburðinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×