Innlent

Dómsmálaráðherra sakar Smára McCarthy um leiðinlega vandlætingu yfir vinnubrögðum ráðuneytis

Gunnar Hrafn Jónsson skrifar
Dómsmálaráðherra segir ekkert því til fyrirstöðu að samþykkja frumvarpið en Smári McCarthy er á öðru máli og gagnrýndi vinnubrögð ráðuneytis hennar almennt.
Dómsmálaráðherra segir ekkert því til fyrirstöðu að samþykkja frumvarpið en Smári McCarthy er á öðru máli og gagnrýndi vinnubrögð ráðuneytis hennar almennt. Vísir/Stöð 2
Sigríður Andersen dómsmálaráðherra segir að vissulega hefði verið heppilegra ef Alþingi hefði meiri tíma til að afgreiða viðamikið frumvarp um persónuvernd og vörslu persónuupplýsinga. Hún mætti Smára McCarthy, þingmanni Pírata, í Víglínunni á Stöð 2 í hádeginu.

Smári sagði að fyrir utan allt annað væri ekki traustvekjandi að svo flókið og mikilvægt mál hafi verið unnið í Dómsmálaráðuneytinu, sem hafi ítrekað sent frá sér illa unnin mál sem hafi þurft að leiðrétta á Alþingi.

Sigríður lagði frumvarpið fram á síðustu metrunum fyrir þinghlé en Smári segist hafa kallað eftir því mánuðum saman og nú sé mjög skammur tími eftir til að vinna þetta flókna mál sem ætti að geta orðið stærsta framfaraskref í persónuverndarmálum í marga áratugi.

Dómsmálaráðherra tók orðum Smára um vinnubrögð Dómsmálaráðuneytisins afar illa og sakaði hann um leiðinlega vandlætingu. Hún viðurkenndi að betra hefði verið að gefa þinginu meiri tíma en það hafi ekki verið hægt fyrr en að búið væri að afgreiða persónuverndarlöggjöf EES svæðisins og skýra hvaða áhrif þau hefðu á EFTA ríkin. Sagði hún að sitt frumvarp væri ef til vill komið fram of snemma ef eitthvað væri.

Smári sagði það einfaldlega ekki rétt, hann og aðrir hafi kallað eftir þessu frumvarpi mánuðum saman. Hins vegar hafi farið af stað fyrirsjáanleg umræða innan ríkisstjórnarinnar, sama umræða og eigi sér stað í hvert einasta sinn sem núverandi stjórnarflokkar þurfi að afgreiða Evrópusambandsmál.

Efnislega sagði Smári að stærsta atriði nýrrar persónuverndarlaga væri að gera það algjörlega skýrt að upplýst samþykki þurfi fyrir allri söfnun og notkun gagna um fólk. Það hafi kannski legið fyrir að einhverju leyti en sé gert mun skýrara með þessum breytingum.

Smári benti á að stór alþjóðleg fyrirtæki byggt sín viðskiptamódel á að njósna um notendur sína og breytt löggjöf í Evrópu geti sett starfsemi slíkra fyrirtækja í uppnám. Allt í einu sé sagt með skýrum hætti að réttindi einstaklinga gangi framar en réttur fyrirtækja til að stunda sínar njósnir. Það sé stórkostlegt.

Smári sagði það hins vegar mikið áhyggjuefni að á meðan upplýsingatækni hafi þróast hratt á stuttum tíma virðist mörg fyrirtæki enn ekki leggja mikla áherslu á gagnaöryggi. Það hafi meðal annars sést greinilega á Vodafone lekanum, þegar þúsundir persónugreinanlegra SMS skilaboða úr tölvukerfum Vodafone var lekið á netið.

Sigríður tók undir þau orð Smára að upplýst samþykki væri stærsta atriðið. Með breyttri samfélagsgerð hefðu myndast stórir hópar fólks sem væri meira en viljugt til að deila persónu-upplýsingum sínum. Málið sé hins vegar mun víðtækara en svo að það sé bara bundið við samfélagsmiðla. Varðveisla sjúkraskráa sé annað mikilvægt atriði og sama megi segja um þau gögn sem verslanir geyma um innkaup einstaklinga. Þá sé ekki nóg að ráðin sé ein manneskja í hvert fyrirtæki til að sinna upplýsingaöryggi, það þurfi hugarfarsbreytingu til að það sé öllum starfsmönnum í blóð borið að fara varlega með persónu-upplýsingar.

Í því Samhengi benti Smári á að stjórnmálaflokkar væru til dæmis nokkuð stórtækir í að safna upplýsingum um kjósendur. Sigríður tók undir það og bætti við að Íþróttafélög væru einnig í erfiðri stöðu þar sem þau byggju yfir umfangsmiklum gögnum um íþrótta- og tómstundaiðkun barna. Hann tók undir með Sigríði hvað það varðar að hugarfars- og menningarbreytingu þurfi til að fólk fari að bera tilskylda virðingu fyrir upplýsingum um hvert annað. Lítil umræða hafi t.d. verið hér á landi um þýðingu nýrra persónuverndarlaga í Evrópu þó að þau hafi víðtæk áhrif á Ísland.

Að lokum spurði þáttastjórnandi hvort ráðherra og þingmaður teldu líklegt að tækist að semja um afgreiðslu frumvarpsins fyrir þinglok sem eru varlega áætluð næsta föstudag.

Sigríður sagði einbúið að málið verði samþykkt til að koma í veg fyrir réttaróvissu fyrirtækja sem senda persónuupplýsingar á milli Evrópu og Íslands. Þingið hafi hvort eð er lítil tök á að breyta frumvarpinu úr þessu.

Smári sagði hins vegar að það væri þingsályktunartillaga um sama mál sem mest lægi á. Hún myndi fljúga í gegnum þingið enda fín í sínu núverandi formi. Annað mál væri um sjálft frumvarpið sem væri langt, flókið og tæknilegt. Sagðist Smári nú þegar hafa varið fjórum dögum í að lesa textann og taldi sig aðeins hálfnaðan. Ljóst væri að ef eitthvað kæmi uppá á þinginu, eins og oft gerðist, myndi ekki vera nægur tími til að klára að afgreiða frumvarpið.

 




Tengdar fréttir

Allt á öðrum endanum á Alþingi

Dagskrá Alþingis fór öll úr skorðum í dag eftir að stjórnarliðar lögðu fram frumvarp um lækkun veiðigjalda upp á um þrjá milljarða króna á næsta fiskveiðiári.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×