Leikkonan Roseanne Barr kennir áhrifum svefnlyfja um rasískt tíst sem hún birti á Twitter í gær. Tísti Barr svívirðingum um að Valerie Jarrett, fyrrverandi ráðgjafi Barack Obama, væri api.
Sjónvarpsstöðin ABC tilkynnti að þáttur Barr yrði tekinn af dagskrá vegna tístsins, en þættir hennar sem nutu vinsælda á 10. áratugnum höfðu nýlega verið endurvaktir. Sagði ABC í yfirlýsingu að tístið hefði verið andstyggilegt og ógeðfellt.
Greint er frá því á vef Guardian að Barr hafi síðan reynt að útskýra tístið.
„Þetta var klukkan tvö um morgun og ég var að tísta á Ambien. [...] Ég gekk of langt og ég vil ekki verja þetta. Þetta var svívirðilegt og óverjanlegt. Ég held að Joe Rogan hafi haft rétt fyrir sér um Ambien,“ sagði Barr og vísaði þar í orð Rogan þegar hann lýsti lyfinu sem „ógnvekjandi dóti.“
„Ég vil ekki reyna að búa til afsakanir fyrir það sem ég gerði en ég hef gert undarlega hluti undir áhrifum Ambien: brotið vegg klukkan tvö um nótt og svo framvegis,“ sagði Barr.
Barr mun verða gestur í hlaðvarpsþætti Rogan, The Joe Rogan Experience, á föstudag en í síðustu viku vakti Rogan athygli á grein í Huffington Post sem fjallaði um aukaverkanir svefnlyfsins sem er það svefnlyf sem læknar ávísa mest á.
Kennir svefnpillum um rasískt tíst
Tengdar fréttir
Roseanne tekin af dagskrá eftir rasískt tíst
Leikkonan íhaldssama líkti ráðgjafa Obama forseta við íslamískan apa á Twitter.