Erlent

Vonarstjarna repúblikana segir af sér

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Eric Greitens, ríkisstjóri Missouri, gæti verið á leið í fangelsi.
Eric Greitens, ríkisstjóri Missouri, gæti verið á leið í fangelsi. Vísir/afp
Eric Greitens, ríkisstjóri Missouri í Bandaríkjunum, hefur ákveðið að segja af sér. Greitens var handtekinn í febrúar síðastliðnum og ákærður fyrir glæpsamlegt brot gegn friðhelgi einkalífs. Þá var hann jafnframt talinn hafa farið á svig við lög um fjármögnun kosningaframboða. Ríkisþing Missouri hafði því til skoðunar að víkja Greitens úr embætti áður en hann ákvað í gærkvöld að segja sjálfur af sér.

Greitens var álitin mikil vonarstjarna í Repúblikanaflokknum en hann náði kjöri árið 2016. Árið áður hafði hann átt í sambandi við hjákonu. Hann var sakaður um að hafa hótað hjákonunni að birta nektarmynd sem hann tók af henni ef hún talaði einhvern tímann um samband þeirra opinberlega.

Sjá einnig: Ríkisstjóri handtekinn, grunaður um hótun með nektarmynd

Í ákæru sem gefin var út á hendur Greitens var hann sakaður um að hafa vísvitandi myndað konuna nakta án vitundar hennar og síðan sent myndina þannig að hún „varð aðgengileg í gegnum tölvu“.

Fram að þessu hefur Greitens, sem bauð sig meðal annars fram sem fulltrúi fjölskyldugilda, harðneitað að segja af sér. Þess í stað hefur hann sagt að um „pólitískar nornaveiðar“ sé að ræða. Hann hafði þó viðurkennt framhjáhaldið. Ríkisstjórinn á yfir höfði sér fjögurra ára fangelsisdóm.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×