Fótbolti

Helgi: Ekki hægt að hafa eina æfingu og allir gera það sama

Anton Ingi Leifsson skrifar
Helgi Kolviðsson, aðstoðarþjálfari íslenska landsliðsins, segir að það sé nóg að gera hjá þjálfarateymi landsliðsins er það undirbýr HM í Rússlandi í sumar.

„Við erum að fylgjast með öllum. Við höfum verið að taka álagið hjá þeim sem eru eru að spila og þeim eru ekki að spila,” sagði Helgi í samtali við Akraborgina í gær.

„Við erum að skoða hverja þurfum við að peppa upp og hverjir þurfa meiri hvíld. Það er mjög mismunandi álag á leikmönnunum. Það er ýmislegt að gera.”

Hann segir að það þurfi að setja upp mismunandi æfingar fyrir mismunandi leikmenn innan hópsins því bæði hafa þeir spilað mismikið og klári núverandi tímabil á mismunandi tímapunkti.

„Það er ekki hægt að hafa bara eina æfingu og allir gera það sama. Menn eru að klára mótið á mismunandi tímum og sumir eru tæpir. Við þurfum að skóla upp aðra leikmenn þá í aðrar stöður. Þetta er allt sem við þurfum að taka inn.”

Leið Helga eins og það hafi verið sparkað í magann á honum er hann heyrði um meiðsli fyrirliðans, Arons Einars?

„Ég meiddi mig ekkert en þetta eru hlutir sem við getum ekki haft áhrif á. Þetta getur alltaf gerst í fótbolta. Maður vill helst að það meiðist ekki neinn og þetta er alltaf svkekjandi. Það skiptir engu máli hvaða leikmaður þar á í hlut.”

„Það eru allir mikilvægir en við vitum mikilvægi hans og hvernig týpa hann er,” sagði Helgi við Akraborgina í gær.

Allt viðtalið má heyra í glugganum efst í fréttinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×