Innlent

Vildi fá bætur eftir flugeldaslys

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Maðurinn segir skotkökuna hafa verið gallaða.
Maðurinn segir skotkökuna hafa verið gallaða. Vísir/Stefán
Karlmaður fær ekki bætur úr ábyrgðartryggingu flugeldasala eftir að eining úr skotköku sprakk í andlit hans. Þetta er niðurstaða úrskurðarnefndar í vátryggingamálum (ÚNVá).

Maðurinn kveikti í skotköku laust eftir miðnætti aðfaranótt nýársdags árið 2017. Þráðurinn brann upp en ekkert gerðist. Maðurinn gekk þá að kökunni og kraup niður til að kanna kökuna. Fór hún þá skyndilega af stað með fyrrgreindum afleiðingum. Maðurinn var ekki með hlífðargleraugu og slasaðist nokkuð á andliti.

Maðurinn krafðist þess að vátryggingafyrirtæki flugeldasalans bætti tjón hans. Kakan hefði verið gölluð og að viðvaranir og leiðbeiningar hefðu ekki gefið til kynna að menn ættu að halda sig frá henni í lengri tíma eftir að eldur væri borinn að kveikiþræðinum. Þá hefði kynning og sala skotkökunnar ekki verið í samræmi við ákvæði reglugerðar um skotelda.

Í niðurstöðu ÚNVá segir að engin rannsókn hafi farið fram á því hvort kakan hafi verið gölluð eður ei. Ekki þótti sýnt fram á að flugeldasalinn bæri nokkra ábyrgð á slysinu og var bótakröfunni hafnað af þeim sökum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×