Greint var frá því í gær að Avner og Yair Netanjahú, synir Benjamíns Netanjahú, forsætisráðherra Ísraels, væru staddir á landinu. Þeir séu í einkaferð með hópi frá Ísrael en ekki í opinberum erindagjörðum.
Bræðurnir eru fyrstir fullorðinna barna forsætisráðherra til að fá fulla öryggisgæslu og hefur það verið umdeilt í Ísrael. Samkvæmt heimildum Vísis komu lífverðir bræðranna með skotvopn með sér til Íslands. Fyrst var greint frá vopnaburði lífvarðanna í Stundinni í morgun.

Enginn munur á opinberri eða einkaheimsókn
Í skriflegu svari við fyrirspurn Vísis staðfestir Haraldur Johannessen, ríkislögreglustjóri, að lífverðir bræðranna beri vopn undir stjórn sérsveitar ríkislögreglustjóra. Ríkislögreglustjóri geti samkvæmt lögum heimilað erlendum lögreglumönnum og öryggisvörðum að bera vopn við störf sín hér á landi enda starfi þeir undir stjórn lögreglunnar og fylgi reglum um vopnaburð og notkun vopna að öllu leyti. Ríkislögreglustjóri gefi út sérstök skírteini handa viðkomandi.Ekki er gerður greinarmunur á því hvort að um opinbera eða einkaheimsókn sé að ræða. Ákvörðun um að veita heimild til vopnaburðar er sögð byggjast á mati hverju sinni.
Lífverðir bræðranna eru á vegum ísraelskra stjórnvalda en ríkislögreglustjóri gefur ekki upp hversu margir þeir eru eða hversu margir íslenskir lífverðir fylgja þeim.