Erlent

Tvö börn meðal hinna látnu

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Um 500 byggingar eru sagðar gjörónýtar eftir eldana.
Um 500 byggingar eru sagðar gjörónýtar eftir eldana. Vísir/Getty
Tvö börn og langamma þeirra eru meðal þeirra fimm sem látið hafa lífið í miklum skógareldum sem nú geisa í norðurhluta Kaliforníuríkis.

Áður hefur verið greint frá því að tveir slökkviliðsmenn hafi farist í eldunum. Sautján er saknað og tugþúsundir hafa þurft að yfirgefa heimili sín.

Um 3.400 slökkviliðsmenn vinna að slökkvistarfi en aðstæður eru með versta móti því ákaflega heitt og þurrt er í norðurhluta Kaliforníu. Hvassviðri hefur þá blásið nýju lífi í skógareldana sem geisað hafa í rúma sex sólarhringa. Talið er að þeir hafi átt upptök sín í bifreið sem bilaði á þjóðvegi einum. Eldurinn barst undan vélarhlíf bílsins í nálæg tré og þaðan yfir um 194 ferkílómetra svæði - sem er á stærð við San Fransisco-borg.

Móðir barnanna tveggja greindi frá því í samtali við þarlenda miðla að börnin, sem voru fjögurra og fimm ára gömul, hafi farist í eldunum ásamt langömmu þeirra. Þau hafi ætlað sér að yfirgefa heimili langömmunnar en orðið innlyksa. Langamman, hin sjötuga Melody Bledshoe, er sögð hafa hringt á neyðarlínuna þegar henni hafi verið orðið ljóst að eldurinn væri búinn að króa hana og börnin af. Hún á ekki að hafa náð að klára símtalið áður en heimili hennar varð eldinum fullkomlega að bráð.

Jerry Brown, ríkisstjóri Kaliforníu, hefur óskað eftir alríkisaðstoð svo að koma megi í veg fyrir hamfaraástand í ríkinu. Sérfræðingar segja að skógareldarnir séu einhverjir þeir verstu í áratugi.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×