Erlent

Háttsettur bandarískur kardináli segir af sér

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Fleiri ásakanir á hendur Theodore McCarrick hafa litið dagsins ljós á síðustu vikum.
Fleiri ásakanir á hendur Theodore McCarrick hafa litið dagsins ljós á síðustu vikum. Vísir/EPA
Frans páfi hefur fallist á uppsagnarbeiðni bandarísks kardinála sem gefið er að sök að hafa brotið kynferðislega á unglingi fyrir um hálfri öld síðan.

Hinn 88 ára gamli Theodore McCarrick, sem eitt sinn gegndi stöðu erkibiskups í Washington, segist ekki muna eftir málinu. Kristilegir leiðtogar vestanhafs hafa lýst því yfir að kirkjan telji að fótur sé fyrir ásökununum.

Í yfirlýsingu frá Vatíkaninu segir að auk embættisviptingarinnar muni McCarrick þurfa að sæta einangrun. Í einangruninni verði honum gert að „íhuga og biðja“ þangað til að mál hans verður til lykta leitt fyrir dómstól kaþólsku kirkjunnar.

Þetta er í fyrsta sinn frá árinu 1927 sem bandarískur kardináli segir af sér. Sjaldgæft er að jafn háttsettir embættismenn innan kaþólsku kirkjunnar séu sakaðir eða fundnir sekir um kynferðisbrot. Greint var frá því á dögunum að ástralskur dómstóll hafi fundið þarlendan erkibiskup sekan um að hafa hylmt yfir kynferðisbrot innan kaþólsku kirkjunnar í Ástralíu.

McCarrick var gefið að sök að hafa brotið á unglingi meðan hann starfaði sem prestur í New York í upphafi áttunda áratugarins. Ásakanirnar voru ekki opinberaðar fyrr en í júní síðastliðnum. Síðan þá hafa fleiri stigið fram og sakað McCarrick um að hafa brotið á sér. Hann hefur ekki tjáð sig um þær ásakanir.

Nánar má fræðast um málið á vef breska ríkisútvarpsins.


Tengdar fréttir

Erkibiskup fundinn sekur um hylmingu

Dómstóll í Ástralíu telur sannað að kaþólskur erkibiskup hafi reynt að hylma yfir barnaníð innan kirkjunnar á áttunda áratug síðustu aldar.

Erkibiskup í 12 mánaða fangelsi

Kaþólskur erkibiskup í Ástralíu hefur verið dæmdur í 12 mánaða fangelsi fyrir að hylma yfir kynferðisbrot innan kirkjunnar á áttunda áratug síðustu aldar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×