Innlent

Þjóðvegi 1 um Eldhraun lokað vegna vatns úr Skaftár­hlaupi

Bergþór Másson skrifar
Frá þjóðvegi 1 við afleggjarann að Skál þar sem flæddi yfir veginn i gær
Frá þjóðvegi 1 við afleggjarann að Skál þar sem flæddi yfir veginn i gær Vísir/Jóhann K. Jóhannsson

Suðurlandsvegi vestan við Kirkjubæjarklaustur hefur verið lokað vegna vatns á akbraut. Þetta kemur fram í tilkynningu lögreglunnar á Suðurlandi.

Lögregla segir ákvörðunina tekna í samráði við Vegagerðina og bendir á hjáleið um Meðallandsveg.

Eins og Vísir greindi frá í dag byrjaði vatn að flæða yfir þjóðveg 1 rétt vestan við útsýnispall í Eldhrauni í Skaftárhreppi í morgun og hámarkshraði var lækkaður niður í 30 kílómetra á klukkustund.

Ágúst Freyr Bjartmarsson, yfirverkstjóri Vegagerðarinnar, segir vatnið vera orðið of djúpt til þess að bílar geti farið yfir en getur ekki sagt til um hvenær vatnsmagnið mun minnka.

Hjáleiðin um Meðallandsveg er talin tefja bílstjóra um 40-60 mínútur.

Samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofu Íslands fer Skaftárhlaup nú hægt minnkandi og hefur hlaupið þegar náð hámarki. Mun áhrifa hlaupsins gæta nokkuð næstu daga og gert er ráð fyrir að Skaftá muni ekki ná eðlilegu rennsli á ný fyrr en síðar í vikunni.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×