Umfjöllun og viðtöl: Stjarnan - ÍR 29-24 │ Stjarnan í úrslitakeppni

Stefán Árni Pálsson skrifar
Stjörnumenn reyna að hanga á sæti sínu í úrslitakeppninni
Stjörnumenn reyna að hanga á sæti sínu í úrslitakeppninni Vísir/Vilhelm
Stjarnan vann frábæran og mikilvægan sigur á ÍR, 29-24, í Olís-deild karla í handbolta í kvöld. Leikurinn var mjög jafn stóran hluta leiksins en undir lokin stungu heimamenn af.

Staðan í hálfleik var 13-12 fyrir Stjörnuna. Ari Magnús Þorgeirsson var stórkostlegur í liði Stjörnunnar í kvöld og skoraði 9 mörk.

Af hverju vann Stjarnan ?

Liðið var með meira bensín á tankinum. Það er alveg á hreinu. Í stöðunni 20-20 og þrettán mínútur eftir þá hætti ÍR liðið í raun og veru. Stjörnumenn héldu áfram uppteknum hætti og spiluðu sinn leik en gestirnir fóru inn í skelina og töpuðu leiknum á síðustu mínútum leiksins.

Hverjir stóðu upp úr?

Ari Magnús Þorgeirsson var geggjaður í liði Stjörnunnar og þá sérstaklega í síðari hálfleiknum. Ólafur Rafn Gíslason kom inn á í mark Stjörnunnar og varði mjög vel í seinni hálfleiknum. Í liði ÍR-ingar var Daníek Guðmundsson atkvæðamestur með sex mörk.

Hvað gekk illa?

Skotnýting ÍR-inga var alls ekki nægilega góð undir lokin og voru leikmenn liðsins ýmist að skjóta illa eða velja röng færi. Það vantaði alla skynsemi í sóknarleik ÍR. Einnig fékk Ari Magnús allt of mikið pláss fyrir utan vörn ÍR-inga og skoraði hann að vild.

Hvað er framundan?

Stjarnan mætir Valsmönnum núna strax á miðvikudagskvöldið og það verður hörkuleikur. Stjarnan er búin að tryggja sæti sitt í úrslitakeppninni og hefur það ekki gerst í mörg ár. En spurning hversu ofarlega þeir komast í deildinni. ÍR-ingar þurfa halda vel á spöðunum til að ná síðasta sætinu í úrslitakeppninni.

Brjálaður Bjarni sendir Einari Jóns og dómurunum pillur
Bjarni Fritzson er þjálfari ÍR.vísir
„Við förum mjög illa með færin okkar hérna undir lokin,“ segir Bjarni Fritzson, þjálfari ÍR, eftir tapið í kvöld. 

„Við gerum okkur seka um hræðilega tapaða bolta í kvöld og hjálpum þeim allt of mikið að ná upp þessu forskoti. Þessir feilar eru bara lélegir og óafsakanlegt hjá okkur.“

Bjarni segir að hans menn hafi einnig mátt skjóta töluvert betur á markið og ekki eins oft beint í markvörðinn.

„Mig langar að segja eitt. Einar Jónsson (þjálfari Stjörnunnar) tuðaði svo mikið hérna fyrstu fimmtán mínúturnar að ég hef aldrei séð annað eins. Ég held að hann hafi ekki einu sinni fengið gult spjald í leiknum. Hann tuðar stanslaust og dómararnir hættu bara að dæma eftir fimmtán mínútur. Allt í einu hættum við að fá víti og fengum bara ekki neitt. Þetta var glórulaust. Þeir dæmdu ekkert öðrumegin og bara hinumegin, af því að hann var búinn að tuða svo mikið. Þeir voru bara skíthræddir og þetta var bara algjör katastrófa. Þeir eiga stjórna leiknum og ekki að láta stjórna sér. Þetta er til skammar.“

Einar: Er ég ekki alltaf tuðandi?
Einar var ánægður með sína menn í kvöld.vísir/anton
„Við vorum bara að tryggja okkur endanlega inn í úrslitakeppnina og ég er bara mjög stoltur af því,“ segir Einar Jónsson, þjálfari Stjörnunnar, eftir sigurinn

„Það þarf sennilega að fara í sögubækurnar að leita af því hvenær Stjarnan var síðast í úrslitakeppninni. Mér fannst við spila alveg ógeðslega vel í dag og sérstaklega í seinni hálfleiknum. Við vorum frábærir í vörn og sókn og markvarslan góð.“

Einar segist hafa dreift álaginu vel undir lokin og það hafi skipt sköpum. Einar Jónsson fékk að heyra hvað kollegi hans Bjarni Fritzson sagði eftir leikinn.

„Er það eitthvað nýtt? Er ég ekki alltaf tuðandi? Menn verð bara að horfa á leikinn. Ég fékk ekki gult spjald, hann fékk gult spjald. Ég veit ekki hvort var að tuða meira.“

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira