Innlent

UNICEF verkefni Héðins tilnefnt til Webby verðlauna

Sylvía Rut Sigfúsdóttir skrifar
Héðinn Halldórsson hefur starfað fyrir UNICEF í Líbanon frá árinu 2016.
Héðinn Halldórsson hefur starfað fyrir UNICEF í Líbanon frá árinu 2016. MYND/UNICEF
UNICEF vefsíðan Imagine a School er tilnefnt til tveggja Webby verðlauna, en Héðinn Halldórsson er einn þeirra sem standa að baki verkefninu. Webby verðlaunin þykja þau virtustu þegar kemur að vefverðlaunum, svo tilnefningarinnar eru mikill heiður.

Héðinn er starfsmaður UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, í Líbanon. Webby verðlaunin eru veitt framúrskarandi árangri tengdum internetinu. Síðan Imagine a School er tilnefnd í flokki aktívisma og einnig sem besta notendaupplifunin.

Minna en helmingur sýrlenskra flóttabarna í Líbanon er í skóla. 187.427 flóttabörn á skólaaldri sem eru á svæðinu eru ekki í námi og UNICEF í Líbanon hefur það í forgangi að vinna að því vandamáli. Síðan Imagine a School er hluti af vitundarvakningu um þessi börn en þar má lesa sögur þeirra og hlusta á hvernig þau sjá skóla fyrir sér og ástæður þess að þau eru ekki í námi.

Héðinn Halldórsson er einn þeirra sem standa að baki UNICEF herferðinni Imagine a School.Skáskot/Imagineaschool
Sum barnanna sem sjást í þessu verkefni þurftu að hætta í námi vegna átakanna í Sýrlandi en önnur hafa aldrei fengið tækifæri til þess að byrja í skóla. Ljósmyndirnar af börnunum tók Alessio Romenzi en Héðinn sá um upptökur og ritstjórn á myndböndum ásamt Yara Moussaoui. Vignette Interactive gerðu vefsíðuna. Í myndbandi um verkefnið kemur fram að Héðinn hafi talað við hundruð barna síðustu ár. Það sem hann hafði áður ekki gert sér grein fyrir, var hversu mikilvægt það er að börnin fái menntun þegar þau eru ung.

Allir geta gefið verkefninu atkvæði í kosningunni sem fer fram á sérstakri kosningasíðu verðlaunanna. Lokað verður fyrir atkvæðagreiðslu almennings þann 19. apríl næstkomandi.

QuizUp leikurinn hlaut þessi verðlaun 2014 og 2015 og vefhönnuðurinn Haraldur Þorleifsson fékk þau árið 2013 fyrir kynningarsíðu fyrir Google Maps, sem heitir More Than A Map. Björk fékk Webby verðlaun árið 2012 fyrir plötu sína Biophilia.


Tengdar fréttir

Björk fékk Webby verðlaunin

Björk Guðmundsdóttur voru veitt Webby verðlaunin í vikunni í flokknum listamaður ársins. Webby verðlaunin er árlegur viðburður og í ár eru 16 ár liðin frá því að Webby verðlaunin voru stofnuð. Verðlaunin eru veitt framúrskarandi árangri tengdum internetinu. Þau eru framsett af The International Academy of Digital Arts and Sciences, en meðlimir eru einstaklingar á sviði tækni og viðskipta og eru einhver helsta viðurkenning sem veitt er í Bandaríkjunum á því sviði.

Haraldur vann Webby-verðlaun

"Ég er húrrandi glaður,“ segir vefhönnuðurinn Haraldur Þorleifsson. Hann vann ein Webby-verðlaun og tvenn People"s Choice-verðlaun, sem eru hluti af Webby-verðlaununum, fyrir hönnun kynningarsíðu fyrir Google maps.

QuizUp hlaut Webby-verðlaunin

Sameiginleg auglýsingaherferð QuizUp og Google hlýtur Webby-verðlaunin í ár í flokknum auglýsingar og miðlun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×