Innlent

Sorpflokkun ábótavant og verðmæti urðuð í Álfsnesi

Sigurður Mikael Jónsson skrifar
Rannsókn á sorpböggum sem urðaðir eru í Álfsnesi sýndi að þar var of mikið af pappír og plasti.
Rannsókn á sorpböggum sem urðaðir eru í Álfsnesi sýndi að þar var of mikið af pappír og plasti. vísir/valli
„Almennt er þarna allt of hátt hlutfall pappírs, pappa og plasts. Sérstaklega pappírs og pappa og stjórninni finnst of mikið fara í urðun sem ekki á heima þar,“ segir Björn H. Halldórsson, framkvæmdastjóri Sorpu bs. Á fundi sínum á föstudag var stjórn Sorpu kynnt niðurstaða úr rannsókn Re­source International á innihaldi sorpbagga sem urðaðir eru í Álfsnesi. Niðurstöðurnar voru á þann veg að stjórninni þótti tilefni til að hvetja fyrirtæki og stofnanir sérstaklega til betri flokkunar á endurvinnsluefni eins og pappír og plasti.

Baggaður úrgangur sem fer í Álfsnes er að mestu uppruninn frá fyrirtækjum og stofnunum. Björn segir að rannsókn Resource Inter­national, sem hafi falist í að opna og greina innihald þessara bagga, hafi sýnt að þar var of hátt hlutfall endurvinnsluefna. Pappír og pappi sé verðmætt efni til endurvinnslu og of mikið af því sé sóað í urðun.

Þegar magntölur síðasta árs hjá Sorpu eru skoðaðar segir Björn að mikil aukning hafi orðið á því magni sem fyrirtækið hefur tekið við undanfarin þrjú ár. Árið 2017 hafi raunar verið metár í þessum efnum og aldrei meira sorp fallið til.



Björn H. Halldórsson, framkvæmdastjóri Sorpu.
„Ef öll móttaka hjá okkur er skoðuð er um að ræða 13-15 prósenta aukningu í fyrra, ofan á sömu aukningu árið þar áður og tíu prósenta aukningu þar á undan. Þetta er veruleg aukning.“

Aðspurður segir Björn að þegar allur úrgangur sem Sorpa tekur við er talinn saman nemi hann um 230 þúsund tonnum í fyrra. Þar af er heimilisúrgangur 32 þúsund tonn.

„Magnið hefur verið að aukast og er mælikvarði á hvað er að gerast í samfélaginu. Svo má færa rök fyrir því að þetta sé eðlilegt. Eftir hrun hélt fólk að sér höndum og byggingariðnaðurinn nánast hvarf. Nú er hann kominn aftur og nú er tíminn kominn þar sem fólk skiptir um innréttingar, parket og annað sem það gerði ekki fyrst eftir hrun.“

En ráðum við við allt þetta sorpmagn?

„Við ráðum svo sem við þetta enn þann dag í dag, en það mega ekki vera mörg ár þar sem allt eykst um 15 prósent, þá springum við á limminu.“ 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×