Innlent

Gamlir ársreikningar Flokks heimilanna loks skilað sér

Sigurður Mikael Jónsson skrifar
Flokkur heimilanna hefur loks skilað inn fullnægjandi ársreikningum til Ríkisendurskoðunar vegna áranna 2015 og 2016.
Flokkur heimilanna hefur loks skilað inn fullnægjandi ársreikningum til Ríkisendurskoðunar vegna áranna 2015 og 2016.
Flokkur heimilanna hefur loks skilað inn fullnægjandi ársreikningum til Ríkisendurskoðunar vegna áranna 2015 og 2016. Flokkurinn bauð fram til alþingiskosninganna 2013 og hlaut ríflega þrjú prósent atkvæða og vann sér þar með rétt til framlaga úr ríkissjóði. Á tímabilinu 2013 til 2016 fékk flokkurinn rúmar 29 milljónir króna úr ríkissjóði.

Fréttablaðið greindi frá því í október síðastliðnum að flokkurinn hefði skilað inn ársreikningi fyrir 2015 í febrúar í fyrra. Reikningurinn reyndist aftur á móti óendurskoðaður og óskaði Ríkisendurskoðun eftir frekari gögnum og skýringum á rekstri flokksins. Áður hefur verið seinagangur á ársreikningaskilum flokksins en í desember 2015 munaði minnstu að Ríkisendurskoðun kærði vanskil á reikningi ársins 2014 til lögreglu, líkt og Fréttablaðið hefur greint frá.

Samkvæmt ársreikningi fyrir árið 2015 skilaði flokkurinn 1,6 milljóna króna hagnaði en skuldir námu rúmum tveimur milljónum. Árið 2016 var 820 þúsund króna tap á flokknum en námu skuldir rúmum 1,8 milljónum.

Flokkurinn hefur ekki boðið fram til þings síðan 2013 en illdeilur hafa verið meðal stofnenda, sem meðal annars enduðu í meiðyrðamáli fyrir héraðsdómi. Þar var Pétur Gunnlaugsson, útvarpsmaður á Útvarpi Sögu, sýknaður í máli sem Kristján Snorri Ingólfsson, formaður flokksins, höfðaði vegna ummæla Péturs um að Kristjáni hefði láðst að greiða skuldir flokksins og þess í stað farið til Brasilíu á Heimsmeistaramótið í knattspyrnu 2014. Í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í fyrra kom fram að flokkurinn hefði borgað einkafyrirtæki formannsins og bróður hans 5,3 milljónir úr sjóðum flokksins þegar Pétur lét ummælin falla í júlí 2014.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×