Innlent

Gagnrýna fyrrverandi samráðherra

Sveinn Arnarsson skrifar
Hanna Katrín Friðriksson, þingflokksformaður Viðreisnar
Hanna Katrín Friðriksson, þingflokksformaður Viðreisnar
Þingmenn Viðreisnar eru afar ósáttir við að dómsmálaráðherra hafi leynt upplýsingum fyrir þinginu í aðdraganda samþykktar þingsins á ráðningu 15 dómara við Landsrétt. Telja þingmennirnir að ráðherra hafi þar brugðist skyldu sinni.

Þrír þingmenn Viðreisnar ræddu embættisfærslur Sigríðar Andersen undir liðnum fundarstjórn forseta við upphaf þingfundar í gær. Jón Steindór Valdimarsson sagði það „forkastanleg vinnubrögð að upplýsa þingið á engu stigi máls um að verulegar efasemdir væru um vinnubrögð hennar og aðferðafræði innan Stjórnarráðsins í þessu stóra máli er varðaði skipan 15 dómara í nýjan dómstól“.

Hanna Katrín Friðriksson, þingflokksformaður Viðreisnar, tók í sama streng. Gagnrýndi hún ráðherrann fyrir að upplýsa ekki þingið. „Ef þetta eru vinnubrögð sem við ætlum að láta viðgangast, hvert förum við héðan?“ spurði þingflokksformaðurinn.

Hanna Katrín segir það ámælisvert að ráðherrann skuli hafa viðhaft þessi vinnubrögð. „Ráðherra ber skylda til að upplýsa okkur þingheim svo við getum staðið undir okkar ábyrgð. Það er ekki hægt að vinna málið með þessum hætti og segja svo þingið bera ábyrgð á ráðningunni. Upplýsingaskylda ráðherrans er ótvíræð,“ segir Hanna Katrín. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×