Franski landsliðsmaðurinn Lucas Hernandez sagðist hafa látið sig falla auðveldlega til jarðar til þess að eyða tíma undir lok leiks Frakka og Ástrála á HM í Rússlandi um helgina.
Frakkar komust yfir í leikun á 80. mínútu með sjálfsmarki Aziz Behich eftir að bæði lið höfðu skorað úr vítaspyrnum fyrr í leiknum. Eftir að sigurmarkið kom fór vinstri bakvörðurinn að fara oftar í jörðina til þess að éta upp tímann á klukkunni.
„Eins og sást í leiknum gegn Ástralíu þá eru augnablik þar sem ég ýki aðeins,“ sagði Hernandez á blaðamannafundi í gær.
„Þetta er hluti af leiknum og ég er vanur að gera þetta. Þetta hjálpar liðinu að kaupa sér smá tíma.“
Hernandez er á mála hjá Atletico Madrid og sagði þjálfara sinn þar, Diego Simeone, hvetja sig í þessa tilburði.
„Ég hef alltaf verið svona. Ég lærði þetta á ellefu árum hjá Atletico og þetta er einn sterkasti hluti leiks míns.“
Frakkar mæta Perú í öðrum leik sínum á HM á fimmtudag.
Hernandez segir leikaraskap „einn sterkasta hluta leiks míns“

Tengdar fréttir

Myndbandsdómarinn í stóru hlutverki í sigri Frakka
Frakkland fór með sigur af hólmi gegn Ástralíu í fyrsta leik C-riðils í Heimsmeistaramótinu í Rússlandi en það var sjálfsmark sem var tryggði Frökkum sigur.