Fótbolti

Dietmar Hamann: Ísland er komið á heimskortið

Tómas Þór Þórðarson í Kabardinka skrifar
Íslensku strákarnir fagna marki Alfreðs Finnbogasonar.
Íslensku strákarnir fagna marki Alfreðs Finnbogasonar. vísir/vilhelm
Dietmar Hamann, fyrrverandi leikmaður Liverpool og þýska landsliðsins, var einn af fjölmörgum sparkspekingum um víða veröld sem heillaðist af frammistöðu strákanna okkar á móti Argentínu.

Ísland gerði 1-1 jafntefli við tvöfalda heimsmeistarana í fyrsta leik sínum á HM frá upphafi en markið skoraði Alfreð Finnbogason í fyrri hálfleik.

„Þá má færa rök fyrir því að Ísland átti stig skilið í þessum leik. Íslensku strákarnir lögðu allt í þetta, vörðust frábærlega og hentu sér fyrir allt. Ef það gekk svo ekki varði markvörðurinn,“ segir Hamann sem er sérfræðingur RTÉ á Írlandi.

„Það má segja að Ísland hafi komist á heimskortið í dag. Ég held að nú viti allir í Argentínu hvað Ísland er og hvað margir búa þar,“ bætir hann við.

Á meðan Ísland spilaði eins og lið og uppskar sitt fyrsta stig á stórmóti frá upphafi var Argentína bara eins manns her, að mati Þjóðverjans.

„Íslenska liðið var frábært frá upphafi til enda. Það var frábært að sjá hvernig allir leikmennirnir börðust allan leikinn,“ segir Hamann.

„Argentínska liðið er bara tíu leikmenn sem gefa á Messi og vona að hann geri eitthvað. Þannig vinnur þú ekki leiki og hvað þá stórmót. Miðað við þennan leik er ekkert víst að Argentína komist upp úr riðlinum því Króatía og Nígería eru líka mjög góð lið,“ segir Dietmar Hamann.

Vísir er með öflugt teymi í Rússlandi sem verður með ítarlegan fréttaflutning af íslenska liðinu á HM. Fylgist með á samfélagsmiðlum okkar - á FacebookTwitter og Instagram.


Tengdar fréttir

Ætti Messi að vera vítaskytta Argentínu?

Lionel Messi er óumdeilanlega besti leikmaður argentínska landsliðsins en hann ætti kannski að láta öðrum eftir að sjá um vítaspyrnur liðsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×